Innlent

„Ég hafði verið að gefa barninu mínu 78 prósent spíra“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigríður Valdimarsdóttir gaf nítján mánaða gömlu barni sínu spritt í stað hægðarlosandi lyfja vegna rangrar afgreiðslu í apóteki og enduðu þau á bráðamóttöku. Sigríður hafði beðið um Microlax og Sorbitól í apóteki samkvæmt ráðleggingum frá hjúkrunarfræðingi þar sem strákurinn hennar var mjög stíflaður og átti erfitt með hægðir. Afgreiðsludaman í apótekinu lét hana óvart fá Sólspritt í stað Sorbitól en Sigríður áttaði sig ekki á því fyrr en öndunarvegur drengsins lokaðist og hann hóstaði og grét.

„Ég hljóp niður, bað manninn minn um að vera hjá stráknum. Las utan á umbúðrinar og komst að því að ég hafði verið að gefa barninu mínu 78 prósent spíra ásamt ýmsum öðrum efnum. Þá bara tók við að hringja í 112,“ segir Sigríður í viðtali sem birtist í kvöld í fréttum á Stöð 2.

Sigríður segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða en henni hefur verið ráðlagt að tilkynna atvikið til Landlæknis. Hún segir að starfsmenn beri gríðarlega ábyrgð þegar kemur að afhendingu lyfja fyrir ung börn. Hún segir mildi að ekki fór verr og drengurinn mun ekki hljóta varanlegan skaða af.

Sigríður sagði frá atvikinu svo það gæti verið öðrum víti til varnaðar og vonandi komið í veg fyrri að aðrir lendi í ógnvekjandi atviki sem þessu.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×