Innlent

„Öndunarvegurinn lokaðist og hann kúgaðist mikið og grét mjög sárt“

María Elísabet Pallé skrifar
Sígríður Valdimarsdóttir fór í apótek í gærkvöldi og fékk aðstoð við að versla hægðalosandi lyf fyrir 19 mánaða son sinn. Í stað þess að fá hægðalyf fékk hún Sólspritt sem er ætlað til áburðar á exem. Þegar heim var komið gaf hún syni sínum sprittið sem leiddi til þess að hún þurfti að fara á bráðamóttöku.

„Ég bara sting sprautinni upp í hann, ég bara hugsaði ekki að þetta gæti verið eitthvað annað en það sem við báðum um. Hann brást rosalega illa við, öndunarvegurinn lokaðist og hann kúgaðist mikið og grét mjög sárt. Mér brá rosalega mikið, smakkaði sjálf og áttaði mig á því hvað hafði gerst,“ segir Sigríður.

Læknir segir að það hafi verið mildi að ekki fór verr.

„Mér blöskraði yfir því þegar ég fór að skoða þetta betur að umbúðirnar frá Gamla Apótekinu eru nákvæmlega eins fyrir það sem þú þarft að innbyrða og það sem þú berð á þig. Sólspritt er til að bera á líkamann við exemi. Þannig að þetta eru mjög ólík lyf,“ segir Sigríður.

Nú er í gildi verklag við atvikaskráningu þegar alvarleg atvik verða í apótekum og eru þessi atvik mjög fátíð að mati Lyfjastofnunar.

„Lyfjastofnun lítur á atvik af þessu tagi að sjálfsögðu alvarlega, en stofnunin hefur enn sem komið er frekar takmarkaðar upplýsingar um málið en hefur tekið það til skoðunar. En ef skoðun málsins leiðir í ljós að einhverjar brotalamir eru í apótekum þá verður að sjálfsögðu brugðist við því,“ segir Sindri.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×