Lífið

Pétur hætti lífi sínu í nýja þættinum: Sprengdi, sökkti og kramdi bíla

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pétur Jóhann fer alla leið í næsta þætti sínum.
Pétur Jóhann fer alla leið í næsta þætti sínum.
Pétur Jóhann Sigfússon fer af stað með glænýjan þátt á Stöð 2 í oktíober sem ber nafnið PJ Karsjó. Um er að ræða skemmtiþátt um farartæki.

Þátturinn er ekki týpískur bílaumfjöllunarþáttur og verða gestirnir jafn ólíkir og þeir eru margir.

„Við stefnum á það að búa til eins mikla skemmtun og við getum. Í grunninn er þetta kannski um farartæki en við erum ekkert bara að prófa flotta bíla, þó það sé eitthvað svoleiðis,“ segir Pétur Jóhann.

„Það koma gestir í þættina og ég fæ þá með mér í allskonar uppákomur og verkefni. Ég er í raun ekkert að fara spjalla við gestina, nema bara um það verkefni sem við erum að fara leysa af hendi.“

Pétur segir meðal annars að hann sé að fara keppa í mótaröð sem fari fram í Bandaríkjunum og heitir mótið 24 hours of Lemons.

„Við smíðum bíl hérna heima, flytjum hann þangað og ég keppi á honum þar. Þetta er alveg snargeðveik útgáfa af krónuflokki ef það segir manni eitthvað.“

Pétur hefur alltaf haft mikinn áhuga á farartækjum.

„Ég hef alltaf verið mikill bílakarl. Ég hef ekkert vitað en hef mikinn áhuga. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bílaþáttum eins og Top Gear en það eru auðvitað dýrustu þættir í heimi. Í þessum þáttum eyðum við samt miklum tíma í að búa til flott myndefnið. Síðan verður þetta auðvitað frekar heimskulegt, sem er auðvitað óhjákvæmilegt þegar ég eitthvað viðriðinn verkefni.“

Stöð 2 frumsýndi í gær fyrstu stikluna úr þáttunum og má búast við mikilli veislu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×