Fótbolti

Norska ungstirnið áfram út í kuldanum hjá Lars Lagerbäck

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard fær bara að spila með 21 árs landsliðinu eftir að Lars Lagerbäck tók við A-landsliðinu.
Martin Ödegaard fær bara að spila með 21 árs landsliðinu eftir að Lars Lagerbäck tók við A-landsliðinu. Vísir/Getty
Lars Lagerbäck, þjálfari norska karlalandsliðsins í fótbolta og fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins, velur enn ekki Martin Ödegaard í A-landsliðshópinn sinn.

Martin Ödegaard hefur ekki verið valinn í A-landsliðið síðan að Lars Lagerbäck tók við norska liðinu en hann lék 9 landsleiki frá 2014 til 2016. Ödegaard heldur upp á 19 ára afmælið sitt í desember.

Lars Lagerbäck var í dag að velja landsliðshópinn fyrir tvo síðustu leiki Norðmanna í undankeppni HM 2018 sem verða á móti San Marínó 5. október og Norður-Írlandi 8. október.  

Martin Ödegaard verður þess í stað í norska 21 árs landsliðinu sem er að spila á sama tíma.

Ödegaard er eigu spænska stórliðsins Real Madrid en liðið lánaði hann til hollenska liðsins  Heerenveen þar sem hann hefur verið að spila vel.

„Við völdum þann hóp sem við teljum að henti liðinu best. Mín skoðun er sú að 21 árs landsliðið fær tvo góða leiki og ég er að vonast eftir því að hann fái að spila 90 mínútur í þeim báðum,“ sagði Lars Lagerbäck.

Lars Lagerbäck gerir samt breytingar á hópnum og tekur þrjá nýja leikmenn inn. Það eru þeir Pål André Helland, Markus Henriksen og Alexander Söderlund.

Hinn 30 ára gamli Alexander Söderlund spilaði á sínum tíma með FH í Pepsi-deildinni en hann leikur nú með Saint-Étienne í Frakklandi.

Pål André Helland er 27 ára kantmaður sem spilar með Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni og Markus Henriksen er 25 ára sókndjarfur miðjumaður sem spilar með Hull City í ensku b-deildinni.



Hér má sjá allan hópinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×