Innlent

Enn óskipað í 15 skólanefndir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra. Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson
Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra. Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, á eftir að skipa í skólanefndir fimmtán skóla af 27. En frá því að nýr ráðherra tók við í byrjun árs hefur verið skipað í tólf nefndir. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er ástæða þess að ekki hefur verið skipað í fleiri nefndir sú að tilnefningaferlið hefur dregist á langinn enda sé um umfangsmikið verk að ræða.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skipar ráðherra sex fulltrúa í hverja nefnd, samtals 162 aðila. Gert er ráð fyrir að fullskipað verði í nefndirnar á næstu vikum.

Enn á eftir að skipa í skólanefndir eftirtalinna framhaldsskóla: Menntaskólans á Ísafirði, Flensborgarskólans í Hafnarfirði, Menntaskólans við Hamrahlíð, Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Borgarholtsskóla, Menntaskólans í Kópavogi, Menntaskólans við Sund, Menntaskólans á Egilsstöðum, Kvennaskólans í Reykjavík, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólans á Tröllaskaga og Verkmenntaskóla Austurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×