Erlent

Liðsmenn þungarokkssveitar handteknir vegna gruns um mannrán

Atli Ísleifsson skrifar
Decapitated á tónleikum árið 2014.
Decapitated á tónleikum árið 2014. Vísir/Getty
Fjórir liðsmenn pólsku þungarokkssveitarinnar Decapitated hafa verið handteknir í Los Angeles í Bandaríkjunum vegna gruns um mannrán og að hafa svipt konu frelsi sínu eftir tónleika í Washington-ríki fyrr í mánuðinum.

BBC greinir frá því að liðsmenn sveitarinnar bíði þess nú að verða fluttir til Spokane þar sem brotið á að hafa átt sér stað. Lögregla segir atvikið hafa átt sér stað að morgni 1. september eftir að sveitin tróð upp í tónleikahöllinni The Pin.

Hljómsveitarmennirnir sem nú eru í haldi, þeir Michal Lysejko, Waclaw J. Kieltyka, Rafal Piotrowski, og Hubert Wiecek, eru sagðir aðstoða lögregluna við rannsókn málsins.

Talsmaður sveitarinnar segja liðsmennina hafna ásökununum. Segja þeir konuna hafa heimsótt liðsmenn sveitarinnar af frjálsum og fúsum vilja og að allt hafi verið í góðu á milli hennar og hljómsveitarmanna þegar hún fór.

Til stóð að sveitin kæmi fram á þrettán tónleikum til viðbótar í Norður-Ameríku áður en hún héldi heim til Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×