Fótbolti

Yfirburðir strákanna okkar á Norðurlöndunum staðfestir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn landsliðsins taka víkingaklappið með stuðningsmönnum á Laugardalsvelli.
Leikmenn landsliðsins taka víkingaklappið með stuðningsmönnum á Laugardalsvelli. Vísir/Eyþór
Ísland er aftur efst Norðurlandanna á styrkleikalista FIFA en það var staðfest þegar nýr listi var gefinn út í morgun. Áður hafði verið greint frá því að þetta væri í vændum.

Sjá einnig: Falla um tvö sæti á FIFA-listanum en eru aftur orðnir konungar norðursins

Ísland fellur um tvö sæti á listanum eftir að hafa tapað fyrir Finnlandi en unnið Úkraínu fyrr í þessum mánuði. Strákarnir hafa efst verið í nítjánda sæti á listanum en það var í júlí á þessu ári.

Útreikningar taka mið af úrslitum síðustu fjögurra ára en meðal úrslita sem detta nú úr útreikningum er frægt 4-4 jafntefli gegn Sviss í Bern, sem og 2-1 sigur á Albaníu og 1-0 sigur á Færeyjum.

Svíþjóð, sem var fyrir ofan Ísland á síðasta lista, fellur niður í 23. sæti. Danmörk er svo í 26. sæti. Lærisveinar Lars Lagerbäck í norska landsliðinu eru í 73. sæti og stökkva upp um tólf sæti.

Finnar stökkva upp um 23 sæti með sigrum sínum á Íslandi og Kósóvó í mánuðinum og eru í 87. sæti. Færeyjar eru í 93. sæti og er neðst Norðurlandanna.

Ísland er í fjórtánda sæti Evrópuþjóða og myndi því fara í B-deild Þjóðardeildarinnar miðað við þá stöðu. Ísland getur þó í næsta mánuði enn unnið sig upp í A-deildina með góðum úrslitum gegn Tyrklandi og Kósóvó.

Þýskaland kemst upp í efsta sæti listans á kostnað Brasilíu sem er í öðru sæti. Portúgal, Argentína, Belgía, Pólland og Sviss koma svo næst. Englendingar eru í fimmtánda sæti og Ítalir í því sautjánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×