Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fjölnir - ÍA 2-2 | Skagamenn halda sér á floti

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Svekktir Skagamenn í Grafarvogi í kvöld.
Svekktir Skagamenn í Grafarvogi í kvöld. Vísir/Eyþór

Í leik sem bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda, varð 2-2 jafntefli ÍA og Fjölnis niðurstaðan í þessum fallbaráttuslag í 19. umferð Pepsi deildar karla.
Eyþór Árnason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og tók þessar myndir hér fyrir neðan.

Eftir tíðindalitlan fyrri hálfleik, þar sem ákaflega fátt markvert gerðist, fengum við svakalegan seinni hálfleik á Extra vellinum í Grafarvogi þar sem fjögur skrýtin mörk litu dagsins ljós.

Lítið var liðið af seinni hálfleik þegar að Fjölnir komst yfir eftir ákaflega klaufalegt sjálfsmark Ólafs Vals. Misskilningur milli hans og Árna Snæ, markvarðar ÍA, varð þess valdandi að Ólafur skallaði boltinn í eigið mark.

Skagamenn virtust vakna við þetta þetta og tóku yfir leikinn. Komust verðskuldað yfir 2-1 en náðu ekki að nýta yfirburði sína til að gera útum leikinn. Það varð þeim dýrkeypt því að Þórir Guðjónsson jafnaði fyrir Fjölnismenn á 75 mínútu eftir klafs í tegnum, 2-2.

Fjölnismenn fengu síðan urmul tækifæra í lok leiksins til að sigla þrem stigum í höfn en fóru illa með þau.

Jafntefli því niðurstaðan og gengu leikmenn beggja liða niðurlútir til búningsherbergja í lok leiks.

Af hverju varð jafntefli niðurstaðan?
Lítið gerðist í fyrri hálfleik og var hvorugt liðið nálægt því að komast yfir. Í seinni hálfleik áttu hins vegar bæði lið sína kafla. Eftir að Fjölnir komst yfir eftir skrautlegt sjálfsmark Ólafs Vals tóku skagamenn yfir leikin og komust verðskuldað 2-1 yfir.

Þá virtust heimamenn lifna að nýju við og náðu að jafna 2-2. Þeir fengu síðan svo sannarlega tækifærin til að gera útum leikinn í lok leiksins en fóru illa með þau.

Þessir stóðu upp úr: 
Ungu strákarnir í framlínu skagamanna voru flottir í leiknum og komust báðir á blað. Framtíðin björt uppá Skaga. Þá var Arnar Már öflugur á miðjunni og stjórnaði spili skagamanna vel.

Í liði Fjölnis stóð Birnir Snær upp úr og var mjög ógnandi í sóknarleik þeirra. Með smá heppni hefði hann síðan getað skorað flott mark í seinni hálfleik, en þrumuskot hans hafnaði í slánni.

Hvað gekk illa?
Báðum liðum gekk erfiðlega að spila boltanum sín á milli í fyrri hálfleik og skapa opin færi.

Þá voru mörkin fjögur öll frekar klaufaleg og hefðu varnir liðanna og markmenn átt að koma í veg þau.

Hvað gerist næst?
ÍA tekur á móti Stjörnunni á Skaganum næsta sunnudag. Leikur sem þeir verða einfaldega að vinna ef þeir ætla ekki að spila í Inkasso deildinni næsta sumar.

Fjölnismenn fara hins vegar á Hlíðarenda þar sem þeir mæta verðandi íslandsmeisturum Vals.

Jón Þór Hauksson tók við sem þjálfari ÍA í ágúst.

Jón Þór: Ósáttur að hafa ekki gert betur í stöðunni 2-1
Það voru blendndar tilfinningarnar hjá Jóni Þór Haukssyni, þjálfara ÍA, eftir leikinn í dag.

Sagðist hann vera stoltur af því hvernig sínir menn komu tilbaka eftir að hafa lent undir, en hann hafi þó ekki verið ánægður með það hvernig þeir spiluðu eftir að hafa komist yfir, 2-1.

„Ég er gríðarlega ósáttur við að hafa ekki gert betur í þeirri stöðu. Við hefðum getað haldið boltanum aðeins betur og verið agaðri. Jöfnunarmark Fjölnis er náttúrulega ódýrt. Við erum með alveg nógu marga leikmenn til að koma boltanum í burtu þegar þeir skora það mark. Ég er gríðarlega ósáttur með það. Eftir það fer mikill rússibani í gang og bæði lið hefðu getað tekið þetta. Þetta hefði alveg getað dottið báðum megin.”

Jón Þór var spurður útí næstu leiki og möguleika sinna manna.

„Meðan við erum á lífi í þessu þá förum við af krafti í alla leiki. Við fáum Stjörnuna í heimsókn næst og við ætlum að vinna þann leik.”

Ágúst vildi fá meira en eitt stig út úr leiknum í kvöld. vísir/anton

Gústi Gylfa: Við þurftum þessi þrjú stig en við vildum ekki taka þau
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var að vonum svekktur að sínum mönnum hafi ekki tekist að landa sigri á heimavelli í dag.

„Mjög svekktur. Þetta var mjög skrýtinn leikur og skrýtin mörk sem litu dagsins ljós í rauninni.“

„Það sem gerist í lokin sem ég er mjög ósáttur við var að skagamenn eru að berjast fyrir lífi sínu eins og við að sjálfsögðu, er að þeir setja allt í sóknina. Við fáum þá 5-6 upphlaup sem er með ólíkindum að við höfum ekki klárað. Ég er mjög ósáttur með að við höfum ekki klárað þetta hér á heimavelli. Við þurftum þessi þrjú stig en við vildum ekki taka þau.”

Hvað taldi hann vanta til að gera útum leikinn í lokin?

„Það vantaði bara gæði. Í það síðasta fáum við þrjú færi til að koma boltanum inn, það vantar aðeins meiri hungur þarna. Það sem telur mest er að hafa ekki fengið þrjú stig.”

Ágúst var að lokum spurður út í næstu leiki sinna manna og sigur eyjamanna, sem komust með sigri fyrir ofan Fjölni í dag.

„Ég vissi alltaf að ÍBV myndu taka stig. Þetta er bara undir okkur sjálfum komið. Við þurfum að fara að skora almennileg mörk og halda búrinu hreinu.” 

Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.