Innlent

Tvöfalt fleiri afplána nú með ökklaband

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þegar fangi afplánar með rafrænu eftirliti er hann með ökklaband.
Þegar fangi afplánar með rafrænu eftirliti er hann með ökklaband. vísir/gva
Það sem af er ári hafa að meðaltali 17 manns afplánað fangelsisdóma sína með rafrænu eftirliti á hverjum degi. Í fyrra voru það hins vegar að meðaltali sjö.

Alls hafa 198 manns hafið afplánun með rafrænu eftirliti frá því að úrræðið var tekið í notkun árið 2012. Með þessu úrræði geta fangarnir afplánað utan veggja fangelsa en bera ökklabönd meðan á afplánun stendur. Níu manns hafa þurft að fara aftur í fangelsi vegna rofs á skilyrðum sem um slíkt eftirlit gildir.

Hlutfall þeirra sem afplána með rafrænu eftirliti hefur verið á bilinu 12 til 21 prósent af heildarfjölda fanga frá því að úrræðið var tekið í notkun. Það er sífellt meira notað og hefur fjöldi þeirra sem nýta sér úrræðið tekið stórt stökk í ár. Ástæðuna má einkum rekja til lagabreytingar þar sem heimildir fanga til að nýta sér það voru rýmkaðar í fyrra.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.vísir/andri marinó
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að í dag geti fangar með sex ára fangelsisrefsingu eða lengri verið allt að tólf síðustu mánuðina undir rafrænu eftirliti. Hann segir úrræðið hafa gengið vel. Það sé nauðsynlegur liður í þrepaskiptri aðlögun fanga að samfélaginu að nýju. „Mikilvægt er að fangar með langa refsingu lagist hægt en örugglega að samfélaginu að nýju,“ segir Páll í skriflegu svari til Fréttablaðsins.

Í lögum um fullnustu refsinga er kveðið á um heimild til að ljúka afplánun með rafrænu eftirliti. En þar er líka kveðið á um skilyrði fyrir því að slíkt rafrænt eftirlit fari fram. Jafnframt segir að rjúfa megi rafrænt eftirlit þegar fangi stundar ekki vinnu, nám eða starfsþjálfun eða meðferð sem var forsenda fullnustu utan fangelsis. Hið sama á við þegar fangi strýkur frá stofnun eða heimili, brýtur reglur þess eða rýfur skilyrði fyrir fullnustu. Sama gildir telji stofnun eða heimili brostnar forsendur fyrir áframhaldandi dvöl fanga þar. Við slíkar aðstæður er fangi fluttur aftur til afplánunar í fangelsi.

Árið 2012 rauf einn fangi skilyrði rafræns eftirlits, árin 2013-2016 rufu árlega tveir fangar þessi skilyrði en í ár hefur enginn rofið þau. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×