Íslenski boltinn

Eyjólfur: Skil ekki hvernig hann varði þetta en ekki hitt skotið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eyjólfur var góður á miðju Stjörnunnar í kvöld.
Eyjólfur var góður á miðju Stjörnunnar í kvöld. Vísir/Ernir
„Mér fannst þetta fínn leikur hjá okkur og þroskuð frammistaða. Fyrstu tíu mínúturnar vorum við frekar tæpir og þeir fengu einhver skotfæri en svo fannst mér við taka yfir og stýra leiknum,“ sagði Eyjólfur Héðinsson leikmaður Stjörnunnar sem átti fínan leik í 3-0 sigrinum á Víkingi frá Ólafsvík í kvöld.

Eyjólfur sagði að það hefði verið erfitt að brjóta Ólsara á bak aftur en að Stjörnumenn hefðu vitað að þeir myndu opna sig ef Stjarnan næði inn marki.

„Það gerðu þeir svo sannarlega og við áttum flottar sóknir, sérstaklega í seinni hálfleik. Við hefðum getað gert fleiri mörk. Þetta var þolinmæðisvinna og við erum líka ánægðir með að halda hreinu,“ bætti Eyjólfur við.

Valsmenn töpuðu stigum á Akureyri í kvöld og Stjarnan því búin að minnka forskot Valsara á toppnum niður í sjö stig þegar þrjár umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni.

„Mér skilst að það sé enn möguleiki á fyrsta sætinu og við keyrum á það á meðan það er svo. Við eigum Val í næstsíðustu umferðinni hér heima og ef þeir skíta á sig næst er enn góður möguleiki. Auðvitað er gott að stefna á Evrópusæti líka en á meðan það er möguleiki á titli þá keyrum við á það.“

Eyjólfur sýndi fín tilþrif í síðari hálfleik þegar hann átti hálfgert klippuskot frá vítateigslínu sem Víkingar náðu að verjast. Hann viðurkenndi að það hefði verið gaman að sjá boltann fara í netið.

„Ég hef átt nokkur góð skot í sumar, nokkur í þverslána og þeir hafa verið að verja frá mér líka. Það hefði verið gaman að sjá þennan inni. Ég skil ekki hvernig hann gat ekki varið frá Himma (Hilmari Árna Halldórssyni) þarna í fyrri hálfleik en svo tekið skotið frá mér. Við hefðum betur skipt á þessu en svona er þetta,“ sagði Eyjólfur að lokum en hann er þar að vísa til fyrsta marks Stjörnunnar þar sem Christian Martinez markvörður Ólsara missti skot Hilmars Árna klaufalega í netið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×