Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - KA 0-0 | Mark dæmt af KR á lokamínútunum

Árni Jóhannsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. Vísir/Andri Marinó
KR og KA gerðu markalaust jafntefli á Alvogen vellinum í 20. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu fyrr í dag í leik sem verður að teljast ansi tíðindalítill ef frá eru taldar lokamínúturnar. 

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Tobias Thomsen gott mark fyrir KR og varð mikill fögnuður skiljanlega við það. Það leið dágóður tími þangað til dómari leiksins flautaði í flautu sína og gaf til kynna að Garðar Jóhannsson hafi verið rangstæður og markið því dæmt af. Ef það hinsvegar rétt getur blaðamaður ekki dæmt um og verðum við að bíða eftir því að sjá atvikið í sjónvarpinu í kvöld.

Afhverju endaði leikurinn með jafntefli?

Þjálfari KA talaði um það í viðtali eftir leik að það hafi verið bersýnilegt að bæði lið voru að spila þriðja leikinn á sjö dögum. Þar að auki var mikil harka í leiknum, án þess að hann hafi verið grófur og bæði lið mættu skipulögð til leiks.

Það var ekki mikið um færi en liðin fengu bæði tækifæri til að gera út um leikinn. Bæði lið reyndu að spila vel en líklegt er að bæði lið hafi verið búin að lesa leik hins liðsins í þaula. Einnig vantaði pínu hraða í framlínur liðanna til að nýta sér góðar stöður sköpuðust stundum. 

Hvað gekk illa?

Markaskorun og sköpun færa var það sem gekk illa í þessum leik. Eins og áður segir voru liðin kannski komin í þörf fyrir hvíl enda margir leikir á undanförnum dögum. Liðin áttu ágætis spil kafal út á velli en þegar koma á síðasta þriðjung vallarins voru það snertingar og sendingar leikmanna sem brugðust og úr varð tíðindalítill leikur sem varð mjög langur vegna meiðsla leikmanna.

Bestir á vellinum?

Mjög erfitt að velja besta mann leiksins. Jafnræði var mikið og enginn sem stóð upp úr. Pálmi Rafn Pálmason var að lokum valin besti maður vallarins en hann skilaði fínni vakt á miðju vallarins.

Hvað gerist næst?

KR á enn möguleika á þriðja sætinu en hann verður að teljast mjög lítill þar sem FH á leik inni á þá og er með fjögurra stiga forskot á þá nú þegar. Þeir verða hins vegar að tryggja það að þeir fari ekki neðar en fjórða sætið og það er hægt að komast nær því marki með því að vinna leikinn á móti Fjölni eftir viku.

KA fær Grindavík í heimsókn en þeir eru enn í hættu á að falla ef rýnt er í stöðuna og verða þeir því að ná úrslitum í seinustu umferðunum. Það gæti orðið hörkuleikur þar sem Grindavík er í sætinu fyrir ofan KA með tveimur stigum meira og því möguleiki á að KA hoppi upp fyrir Grindavík með sigri.

Pálmi Rafn Pálmason: Línuvörðurinn skal rétt vona að þetta hafi verið rétt ákvörðun

Fyrirliði KR var að vonum gífurlega svekktur í lok leiks enda var mark dæmt af liði hans á lokamínútunum. Hann var fyrst spurður út í markið sem dæmt var af.

„Ég sá þetta ekki greinilega en hann skal rétt vona það að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá honum. Þetta var ótrúleg ákvörðun að taka og ef þetta var ekki rétt hjá þeim þá veit ég ekki hvað ég á að segja. Þetta er í annað skipti á leiktíðinn sem mark er tekið af okkur á lokamínútunum. Upp á Skaga var tekið algjörlega löglegt mark af okkur og ég ætla rétt að vona að þetta hafi verið rétt hjá þeim. Þetta er ógeðslega pirrandi“.

Pálmi var því næst spurður út í gang leiksins sem var ekki mikið fyrir augað í þangað til að markið var dæmt af á 95. mínútu leiksins.

„Þetta var baráttuleikur, mikið um háa bolta, slagsmál og tæklingar og svo höfuðhögg. Sjálfsagt ekki skemmtilegasti leikur fyrir áhorfendur að horfa á en þetta var barátta milli tveggja góðra liða. Mögulega voru liðið búin að lesa hvort annað fyrir leikinn en við náðum ekki okkar spili 100% í gang og þetta var mikil barátta og læti sem tóku sinn toll. Við náðum ekki boltanum niður á jörðina og spila okkar leik“.

KR var líklegast að kveðja Evrópusætið með úrslitunum í dag og var Pálmi beðinn um að leggja mat á seinustu tvær umferðirnar.

„Við höldum áfram þangað til við getum ekki meir, ég veit ekki hvernig við stöndum í dag. Við verðum bara að halda áfram þangað til að við erum algjörlega út úr þessu“.

Willum Þór Þórsson: Mjög sárt þegar gleðinni er rænt af okkur

Það var drungi yfir þjálfara KR, Willum Þór Þórssyni, þegar blaðamaður náði tali af honum eftir jafntefli hans manna á móti KA fyrr í dag. Hann var fyrst spurður út í markið sem dæmt var af þeim og hafði hann ekki mörg orð um atvikið.

„Eina sem ég sá var að þetta var gott skot fyrir utan teig og virtist markmaðurinn þeirra hafa hreint sjónarhorn. Meira get ég ekki sagt um það“.

Þetta er í annað skiptið sem mark er dæmt af KR-ingum á lokamínútunum í sumar en það hlýtur að vera ansi blóðugt fyrir þá í baráttunni í lok leiktíðar.

„Það er svekkjandi og gæti orðið mjög dýrt þegar upp er staðið. Þetta er mikil barátta og jöfn deild þannig að, já, þetta tekur í“.

Um leikinn sagði Willum annars: „KA liðið er feykilega öflugt lið og vel mannað, komu hingað til að verja markið sitt, þeir spila mjög líkamlega sterkir. Þeir komu hingað og spiluðu fast, spörkuðu Bjerregaard út úr leiknum og gáfu tóninn. Þannig að þetta var mjög líkamlegur leikur þar sem við tókum vel á móti þeim og héldum svo boltanum vel og vorum þolinmóðir“.

„Við skiluðum svo þessu marki sem við vorum að leita að og það er sárt þegar grípur um sig gleði eins og upp á Skaga. Svo kemur dómarinn og rænir henni af okkur“.

Willum var spurður hvort Aleksandar Trninic hafi átt að fjúka út af fyrir að hafa sparkað niður Bjerregaard í byrjun leiks en eins og hann nefndi þurfti Bjerregaard að víkja af velli sökum meiðsla.

„Það hefði alveg getað verið rautt spjald. Mér finnst hinsvegar allt að því skondið að í þrígang þá hendir hann sér í grasið að reyna að fiska eitthvað á okkur á gulu spjaldi. Það var ekkert tekið á því“.

Srdjan Tufegdzic: Ég er mjög ánægður með karakterinn í mínum mönnum

Þjálfari KA er líklega sáttari þjálfarinn af tveimur með stigið sem fékkst á Alvogen vellinum í dag. Hann var fyrst beðinn um að leggja mat á markið sem dæmt var af KR.

„Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búinn að sjá atvikið. Það eina sem ég veit er að aðstoðardómarinn kallar á dómarann og þeir ræða saman en mér fannst eins og leikmaður KR hafi verið að hlaupa í áttina að Rajko. Ég verð hinsvegar að sjá þetta betur til að tala eitthvað um það“.

Um leikinn sjálfan sagði Tufegdzic: „Mér fannst leikurinn spilast eins og ég bjóst við. Þriðji leikur hjá báðum liðum á sjö dögum, bæði lið þreytt og völlurinn þungur. Bæði lið eru skipuð svipuðum leikmönnum sem eru líkamlega sterkir en heilt yfir fannst mér við eiga hættulegri færi til að vinna leikinn. Ég þarf að horfa á leikinn aftur en hann var 50/50 en við, held ég, áttum betri færi til að vinna leikinn“.

„Tímabilið er alveg að klárast og það er ekki neitt sem kemur á óvart hjá liðunum. Ég verð að taka það fram að ég er mjög ánægður með karakterinn í mínum mönnum, þeir höfðu viljann til að koma hérna og selja sig dýrt og reyna að vinna leikinn. Með örlítilli heppni þá hefðum við getað náð öllum þremur stigunum hér í dag“.

KA menn eru á nokkuð lygnum sjó um miðja deild og Tufa var beðinn um að leggja mat á seinustu umferðirnar.

„Seinustu umferðirnar snúast um að vinna báða leikina, Grindavík heima og ÍBV út, sem eru hörkuleikir eins og allir hinir. Deildin hefur spilast þannig í allt sumar að þetta eru allt hörkuleikir, það er ekki hægt að reikna með neinu fyrirfram. Við ætlum að hvíla okkur fyrst og taka síðan á móti Grindavík og vera klárir í verkeifnið“.

Maður leiksins: Pálmi Rafn Pálmason, 6.

Einkunnir leikmanna er hægt að sjá undir flipanum Liðin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira