Innlent

Stjörnuver byggt við Perluna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Stjörnuverið mun tengjast Perlunni. Myndin er ekki af fullhönnuðu mannvirki en stór hluti þess verður neðanjarðar.
Stjörnuverið mun tengjast Perlunni. Myndin er ekki af fullhönnuðu mannvirki en stór hluti þess verður neðanjarðar. Reykjavíkurborg
Stjörnuver sem tengist náttúrusýningu í Perlunni verður byggt í Öskjuhlíð og mun það opna á næsta ári. Frumkostnaðaráætlun við viðbygginguna er upp á 350 milljónir króna. Breytt deiliskipulag heimilar einnig byggingu á nýjum hitaveitutanki norðaustan við Perluna.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær breytt deiliskipulag Öskjuhlíðar, innan lóðar Perlunnar. Breytingin felur í sér að ný bygging mun rísa norðan við Perluna og hýsa stjörnuver eða planetarium. Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg verður húsið rúmir 850 fermetrar að stærð.

Ingimundur Sveinsson arkitekt hannar húsið en hann teiknaði Perluna. Það verður svo Perla Norðursins, leigutaki Perlunnar, sem kostar allan búnað og innréttingar í stjörnuverinu. Samkvæmt greinargerð frá skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar borgarinnar munu leigutekjur greiða upp allan útlagðan kostnað borgarinnar við fjárfestinguna á innan við 15 árum.

Nýi hitaveitutankurinn í Öskjuhlíð verður jafnvel með klifurvegg á og á þannig að falla vel inn í umhverfið.Reykjavíkurborg
Samkvæmt breytta deiluskipulaginu verður veitum einnig heimilað að byggja nýjan hitaveitutank í Öskjuhlíð, norðaustan við Perluna. Nýi hitaveitutankurinn í Öskjuhlíð verður jafnvel með klifurvegg á og á þannig að falla vel inn í umhverfið. ‚I tilkynningunni kemur fram að tankarnir gætu orðið tveir í framtíðinni, hvor um sig með rými fyrir 7.800 rúmmetra af vatni fyrir hitaveitu í vesturhluta borgarinnar.

Á næsta ári mun stjörnuverið opna en það verður hátæknivætt með 360 gráðu umlykjandi upplifun með besta hljóðkerfi og myndgæðum sem völ er á.Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir meðal annars:

„Fyrsta sýningin verður sérstaklega samin fyrir stjörnuverið, framleidd af Perlunni og Bowen Productions, þekktu fyrirtæki sem sérhæfir sig í myndum fyrir stjörnuver. Sýningin verður byggð á verkum íslenskra ljósmyndara og kvikmyndatökumanna sem feta nýjar slóðir til að sýna stórkostlega náttúru og lífríki Íslands í þessum spennandi miðli. Hljóðmyndin er úr íslenskri tónlist, sett saman af Ragnhildi Gísladóttur tónlistarkonu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×