Innlent

Bifreið rann út í Elliðavatn

Birgir Olgeirsson skrifar
Erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Eyþór
Á ellefta tímanum í gærkvöldi hafði eigandi bíls samband við lögreglu eftir að bíll hans hafði runnið út í Elliðavatn við Heiðmörk. Eigandinn taldi sig ekki hafa gengið tryggilega frá bifreiðinni þegar hann yfirgaf hana og sagðist ekki hafa skilið hana eftir í gír. var dráttarbifreið fengin á vettvang sem náði bílnum úr vatninu.

Þetta var á meðal fjölda verkefna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti í gærkvöldi og í nótt.

Síðdegis í gær var ung stúlka handtekin í Kringlunni grunuð um búðarhnupl. Hún var einnig grunuð um nytjastuld bifreiðar, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Var hún vistuð í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar máls.

Klukkan 10 í gærkvöldi var maður í mjög annarlegu ástandi handtekinn í bílastæðahúsi í miðborginni þar sem hann hafði brotið rúður í tveimur bílum. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu en við leit á manninum fundust ætluð fíkniefni og hnúajárn.

Rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð á Vesturlandsvegi við Reykjanesbraut. Par var í bifreiðinni sem var handtekið, grunað um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka án ökuréttinda, vörslu fíkniefna og fleira. Parið var vistað í fangageymslu lögreglunnar en tekið er fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að bifreiðin hefði verið ótryggð og skráningarnúmer klippt af.

Á fimmta tímanum í morgun var maður handtekinn í Kópavogi grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×