Innlent

Tveir handteknir vegna alvarlegrar líkamsárásar í Hafnarfirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo karlmenn í nótt grunaða um alvarlega líkamsárás. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir að um eitt leytið í nótt hafi borist tilkynning frá slysadeild Landspítala Íslands um alvarlega slasaðan karlmann á biðstofu.

Talið var að hann hefði verið laminn með einhverju áhaldi en eftir athugun kom í ljós að árásin átti sér stað í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Lögreglan fór á vettvang og handtók tvo menn vegna málsins og voru þeir vistaðir í fangageymslu vegna frekari rannsóknar.

Rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um heimilisofbeldi og líkamsárás í póstnúmeri 110. Var karlmaður handtekinn vegna málsins og hann vistaður í fangageymslu en í dagbók lögreglu kemur fram að ekki sé ljóst með meiðsli þolanda.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var ekið á gangandi vegfaranda í Hafnarfirði og stakk ökumaðurinn af. Lögreglan segist vita skráningarnúmer bílsins en bifreiðin hefur ekki fundist og er ekki vitað um meiðsl á þeim sem ekið var á.

Á þriðja tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um sofandi karlmann í austurbænum. Um var að ræða ungan mann sem var ósjálfbjarga sökum ölvunar. Ekki náðist í aðstandendur og hann því vistaður í fangageymslu þar til af honum rennur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×