Fótbolti

Björn Bergmann skoraði í öðrum sigri Molde í röð | Viðar hafði betur gegn Ingvari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Bergmann er næstmarkahæstur í norsku úrvalsdeildinni.
Björn Bergmann er næstmarkahæstur í norsku úrvalsdeildinni. vísir/anton
Björn Bergmann Sigurðarson var á skotskónum þegar Molde vann 2-3 útisigur á Viking í norsku úrvalsdeildinni í dag. Skagamaðurinn jafnaði metin í 1-1 á 12. mínútu með sínu tólfta marki í deildinni.

Þetta var annar sigur Molde í röð en liðið er í 4. sæti deildarinnar með 37 stig, einu stigi á eftir Sarpsborg sem er í 3. sætinu.

Sarpsborg tapaði illa fyrir Tromsö, 5-0. Aron Sigurðarson sat allan tímann á varamannabekk Tromsö sem er í fimmtánda og næstneðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn fyrir Brann sem bar sigurorð af Sandefjord, 0-1, á útivelli. Brann, sem hefur unnið fjóra leiki í röð, er í 2. sæti deildarinnar. Ingvar Jónsson varði mark Sandefjord sem er í 6. sætinu.

Íslendingaliðið Hammarby fékk á baukinn gegn Malmö í sænsku úrvalsdeildinni. Lokatölur 4-0, Malmö í vil.

Arnór Smárason og Birkir Már Sævarsson léku allan leikinn fyrir Hammarby sem er í 10. sæti deildarinnar.

Hjörtur Hermannsson kom ekkert við sögu þegar Bröndby gerði markalaust jafntefli við Aalborg í dönsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×