Fótbolti

Sara Björk: Þurfum að vera gráðugari

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sara Björk skoraði sitt fyrsta mark síðan síðasta sumar í kvöld.
Sara Björk skoraði sitt fyrsta mark síðan síðasta sumar í kvöld. vísir/eyþór
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var að vonum ánægð með frammistöðu liðsins í 8-0 sigri á Færeyjum í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Frakklandi 2019.

„Við vinnum 8-0 og fáum 3 stig og erum þokkalega sáttar með okkar leik og okkar frammistöðu,“ sagði fyrirliðinn eftir leikinn.

„Við vissum rosa lítið um liðið fyrir leikinn, en við bara þurftum að vera einbeittar og þolinmóðar. Við vissum að þær yrðu lágt á vellinum. Lykillinn að sigrinum var að vera rosalega þolinmóðar og spila boltanum hratt á milli okkar, og við gerðum það vel.“

Mikil markaþurrð hefur verið hjá landsliðinu undanfarið og var því gott að koma nokkrum mörkum inn í kvöld. Sara Björk sagði liðið hefði þó getað skorað fleiri mörk.

„Við hefðum getað skorað fullt af fleiri mörkum. Þurfum að fara að nýta færin okkar aðeins betur.“

Aðspurð hvort það væri áhyggjuefni hversu lítið af færunum nýtist sagði Sara: „Nei, ég hef engar áhyggjur, við skoruðum átta mörk í dag. En við þurfum að vera aðeins gráðugari í teignum og gera betur.“

Sara Björk skoraði síðast fyrir landsliðið í leik gegn Makedóníu á Laugardalsvelli í júní 2016. Hún var glöð með það að hafa loksins náð að skora aftur.

„Já, er ár síðan? Það var eiginlega allt of langt síðan. Tilfinningin var mjög góð. Vonandi fleiri á leiðinni,“ sagði fyrirliði íslenska landsliðsins að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×