Lífið

Ævar vísindamaður leggur UNICEF lið annað árið í röð

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður.
Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður. Vísir/Vilhelm
Ævar Þór Benediktsson leggur UNICEF lið við að framleiða fræðslumyndband um skólastarf við neyðaraðstæður. Þetta er í annað sinn sem Ævar vísindamaður kemur að verkefninu en hann lagði því lið í fyrra.

Í ár er metþátttaka í verkefninu en aldrei hafa fleiri grunnskólar skráð sig til leiks. Tæplega fimmtíu grunnskólar og yfir sjö þúsund grunnskólanemar um allt land taka þátt.

Ævari til halds og trausts var Héðinn Halldórsson, en hann starfar fyrir UNICEF með sýrlenskum börnum á flótta í Líbanon. Myndin segir sögu fimm barna sem hafa þurft að flýja heimaland sitt vegna átaka. Öll vilja börnin mennta sig og fá sum þeirra aðstoð UNICEF til þess.

Myndina er hægt að nálgast á netinu og hún er því opin börnum, aðstandendum og öllum áhugasömum til áhorfs.

Myndin er tekin í Sjálandsskóla og Norðlingaskóla. Handritið er unnið í samstarfi við Ævar Þór og um upptöku og klippingu sá Steindór Gunnar Steindórsson hjá ­UNICEF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×