Innlent

Ekki stemming fyrir því að missa málið í pólitískt orðaskak

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra segir sig og Harald Benediktsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins bæði bera hag sauðfjárræktarinnar fyrir brjósti þó að þeim greini á um aðferðir við lausn á vanda stéttarinnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra segir sig og Harald Benediktsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins bæði bera hag sauðfjárræktarinnar fyrir brjósti þó að þeim greini á um aðferðir við lausn á vanda stéttarinnar. Mynd/samsett
„Við deilum því við Haraldur að vilja veg sauðfjárræktar sem mestan,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, aðspurð um ummæli Haraldar Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns fjárlaganefndar Alþingis, þess efnis að aðgerðaráætlun Þorgerðar til að mæta bráðavanda sauðfjárbænda sé „eyðibýlastefna.“ Ummælin lét hann falla í viðtali við Bændablaðið en hann hefur áhyggjur af þróun byggða landsins vegna vandans.

„Ég held að það sé ekki stemming, hvorki hjá sauðfjárbændum né samfélaginu, að stjórnmálamenn fari að standa í einhverju orðaskaki þegar leysa þarf verkefnin,“ segir Þorgerður.

Þorgerður fundaði í morgun með sláturleyfishöfum til að halda verkefninu áfram og til að leita eftir útfærslum á lausnum. „bráðavandinn eru kjör bænda fyrst og fremst og svo skoðum við birgðavandann. Þá erum við líka með þessum tillögum að ráðast að rótum vandans sem er að draga úr framleiðslu. Það hafa sauðfjárbændur líka sagt.“

Haraldur og Landssamtök sauðfjárbænda hafa gagnrýnt skort á tillögum er varða birgðavandann sem hefur myndast. Þorgerður segir að fyrir liggi að ráðast þurfi í úttekt á birgðunum.

„Við þurfum að vita hverjar þær raunverulega eru og við erum að skoða allar leiðir varðandi birgðavandann það er ekki spurning,“ segir hún. „En við förum ekki í gríðarleg uppkaup á þessu stigi. Hann er ekki þannig að þetta sé einhver bráðavandi. Það liggur fyrir að birgðirnar í dag eru svipaðar og í fyrra og hitt í fyrra. Þannig að við flýtum okkur rólega og allar aðgerðir miða að því að við viljum ekki að þetta endurtaki sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×