Enski boltinn

Eitthvað verður undan að láta í Manchester

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho og Pep Guardiola.
José Mourinho og Pep Guardiola. vísir/getty
Barátta José Mourinho og Pep Guardiola um Manchester-borg síðasta vetur stóð ekki undir væntingum.

Það var afskaplega grunnt á því góða milli Mourinho og Guardiola þegar þeir stýrðu erkifjendunum Real Madrid og Barcelona á Spáni. Mourinho var ráðinn til Madrídarliðsins til að fella Guardiola og Börsungana af stalli sínum. Mourinho beitti öllum brögðum til þess og náði á endanum markmiði sínu. Real Madrid varð spænskur meistari vorið 2012 og Guardiola hætti hjá Barcelona. Ári seinna fór Mourinho sömu leið.

Leiðir þeirra lágu aftur saman í fyrra þegar þeir voru ráðnir knattspyrnustjórar Manchester-liðanna, United og City. Fyrir fram var búist við því að þau myndu berjast um Englandsmeistaratitilinn. En svo fór ekki. Liðin ollu bæði vonbrigðum í ensku úrvalsdeildinni og Mourinho og Guardiola voru stilltir og létu vera að bauna hvor á annan.

Bæði lið byrjuðu vel í fyrra og þá sérstaklega City sem vermdi toppsætið framan af tímabili. En svo kom Chelsea á fullu stími, hirti toppsætið í 12. umferð og lét það ekki af hendi það sem eftir lifði tímabils. City endaði að lokum í 3. sæti, 15 stigum á eftir Chelsea.

Það fór vel á með Guardiola og Mourinho á síðasta tímabili.vísir/getty
United hafnaði í 6. sæti deildarinnar, heilum 25 stigum á eftir Antonio Conte og hans mönnum. United vann hins vegar enska deildabikarinn og Evrópudeildina sem hleypti liðinu bakdyramegin inn í Meistaradeild Evrópu.

City spilaði á köflum frábæran fótbolta í fyrra en varnarleikurinn og sérstaklega markvarslan varð liðinu að falli. Guardiola lánaði Joe Hart til Ítalíu og fékk Claudio Bravo í markið. Sílemaðurinn átti góð ár hjá Barcelona en var eins og fiskur á þurru landi í ensku úrvalsdeildinni. Á tímabili virtist það vera nóg fyrir andstæðinga City að hitta markið til að skora því það lak allt inn. Guardiola fór því í markvarðaleit og fann Brasilíumanninn Ederson sem hann gerði að dýrasta markverði sögunnar.

Guardiola skipti einnig alveg um bakverði. Pablo Zabaleta, Bacary Sagna, Gaël Clichy og Aleksandar Kolarov, sem eru allir komnir yfir þrítugt, voru látnir fara. Í staðinn keypti Spánverjinn Benjamin Mendy, Kyle Walker og Danilo á samtals tæplega 125 milljónir punda. Auk þess keypti City Portúgalann Bernardo Silva frá Monaco.

Vandamál United á síðasta tímabili voru af allt öðrum toga. Liðið skoraði bara 54 mörk í ensku úrvalsdeildinni, aðeins fjórum mörkum meira en Crystal Palace sem endaði í 14. sæti, og gekk bölvanlega að klára leiki. Strákarnir hans Mourinho töpuðu aðeins fimm leikjum á síðasta tímabili en gerðu 15 jafntefli, þar af 10 á Old Trafford.

Úr leik Manchester-liðanna á undirbúningstímabilinu.vísir/getty
Til að ráða bót á þessu sótti Mourinho Romelu Lukaku til Everton. Hann hefur stundum verið gagnrýndur fyrir að skora aðallega gegn lakari liðum en það er nákvæmlega það sem United þarf; mörk til að klára leiki gegn minni liðum.

Mourinho endurnýjaði einnig kynnin við Nemanja Matic sem hefur byrjað frábærlega í rauða búningnum og gert Paul Pogba kleift að blómstra. Þá keypti United sænska miðvörðinn Victor Lindelöf frá Benfica og samdi aftur við landa hans, Zlatan Ibrahimovic.

Líkt og fyrir síðasta tímabil búast flestir við því að Man­chester-liðin berjist um Englandsmeistaratitilinn í vetur. Það virðist þó vera meiri innistæða fyrir þeim spám í ár. Bæði lið eru betur skipuð og betur samansett en í fyrra.

Svo er það staðreynd að bæði Mourinho og Guardiola verða alltaf landsmeistarar á öðru tímabili með sín lið. Það verður því eitthvað undan að láta í Man­chester í vetur.

Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um enska boltann 2. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×