Enski boltinn

Hið erfiða annað ár hjá Jóhanni Berg og félögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg hefur byrjað alla þrjá leiki Burnley í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Jóhann Berg hefur byrjað alla þrjá leiki Burnley í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson er á sínu öðru tímabili hjá Burnley sem freistar þess að endurtaka leikinn frá því í fyrra og halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni. Það gerðist síðast á miðjum 8. áratugnum að Burnley náði að leika þrjú tímabil í röð í efstu deild.

Meiðsli settu strik í reikninginn hjá Jóhanni Berg á síðasta tímabili. Hann byrjaði á bekknum í fjórum af fyrstu fimm deildarleikjum Burnley en Sean Dyche, knattspyrnustjóri liðsins, setti hann í byrjunarliðið fyrir leik gegn Watford á heimavelli í lok september. Íslenski landsliðsmaðurinn spilaði allan tímann í 2-0 sigri og hélt sæti sínu í byrjunarliðinu í næstu sjö leikjum.

Jóhann Berg spilaði sinn besta leik fyrir Burnley þegar liðið vann 3-2 heimasigur á Crystal Palace 5. nóvember. Hann skoraði og lagði upp mark í 3-2 sigri sem kom Burnley upp í 9. sæti deildarinnar.

Burnley steinlá fyrir West Brom í næstu umferð og í leiknum þar á eftir, gegn Manchester City, meiddist Jóhann Berg aftan í læri og var frá í mánuð. Meiðsli héldu áfram að plaga íslenska landsliðsmanninn og hann var aðeins einu sinni í byrjunarliðinu í ensku úrvalsdeildinni það sem eftir lifði tímabils. Hann lék alls 20 deildarleiki á síðasta tímabili, skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar. Auk þess lék hann samtals fjóra leiki í ensku bikar- og deildarbikarkeppninni.

Jóhann Berg virðist hafa nýtt undirbúningstímabilið vel því hann nýtur nú trausts Dyche og byrjaði alla þrjá leiki Burnley í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.



Chris Wood, dýrasti leikmaður í sögu Burnley, skorar jöfnunarmarkið gegn Tottenham.vísir/getty
Stærsta ástæðan fyrir því að Burnley hélt sér örugglega í deildinni á síðasta tímabili var frábær árangur á heimavelli. Alls fékk Burnley 33 stig á Turf Moor sem var eins gott því uppskeran í 19 útileikjum var aðeins sjö stig.

Í upphafi þessa tímabils hefur þessu verið öfugt farið. Burnley gerði sér lítið fyrir og vann 2-3 útisigur á Englandsmeisturum Chelsea í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Jóhann Berg og félagar töpuðu því næst fyrir West Brom á Turf Moor en náðu svo í gott stig gegn Tottenham á Wembley. Fjögur stig úr útileikjum gegn tveimur efstu liðum deildarinnar í fyrra verður að teljast afar góður árangur fyrir lið sem vann aðeins einn útileik í fyrra.

Burnley missti tvo af sínum bestu mönnum í sumar; Michael Keane og Andre Gray. Í staðinn náði Dyche í menn með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni. Jack Cork, Jonathan Walters og Phil Bardsley eru ekki mest spennandi leikmenn í heimi en þeir eru traustir liðsmenn og eiga samtals 640 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Þá keypti Burnley Chris Wood, markahæsta leikmann ensku B-deildarinnar á síðasta tímabili, á metverði frá Leeds. Nýsjálendingurinn minnti strax á sig og skoraði jöfnunarmarkið gegn Tottenham í sínum fyrsta leik fyrir Burnley.

Annað árið hefur oft reynst liðum sem koma upp í ensku úrvalsdeildina erfitt. Burnley virðist hins vegar ágætlega í stakk búið til að halda sæti sínu í deildinni. Stjórinn er fær í sínu starfi, leikmannahópurinn nokkuð þéttur og liðið þekkir sín takmörk.

Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um enska boltann 2. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×