Enski boltinn

Þungskýjað yfir Emirates

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsene Wenger er í vandræðum.
Arsene Wenger er í vandræðum. vísir/getty
Það er þungskýjað yfir Emirates vellinum þessa dagana. Arsenal steinlá fyrir Liverpool, 4-0, í síðasta leiknum fyrir landsleikjahléið og situr í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með þrjú stig eftir þrjá leiki. Aðeins West Ham (10) hefur fengið á sig fleiri mörk en Arsenal (8) í fyrstu þremur umferðunum.

Skytturnar enduðu í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili sem er versti árangur liðsins síðan 1995. Fyrir vikið missti Arsenal af Meistaradeildarsæti í fyrsta sinn í tæpa tvo áratugi. En liðið vann bikarkeppnina í þriðja sinn á síðustu fjórum árum og Arsene Wenger var verðlaunaður með nýjum tveggja ára samningi.

Óánægja stuðningsmanna Arsenal með Wenger var mikil fyrir og hún minnkaði ekkert við þessa vondu byrjun á tímabilinu. Til viðbótar við slæm úrslit missti Arsenal sterka leikmenn undir lok félagaskiptagluggans. Liðið í dag er því veikara en liðið sem hóf tímabilið.

Það versta er svo kannski að Wenger virðist ekki læra af mistökunum eins og sást gegn Liverpool. Metnaðurinn til að spila góðan varnarleik var lítill og þegar boltinn tapaðist var allt opið fyrir Rauða herinn sem skoraði þrjú mörk eftir skyndisóknir í leiknum. Allt þetta hefur sést áður í leikjum Arsenal gegn hinum toppliðunum í ensku úrvalsdeildinni. Samt breytist ekkert.

Það er ólíklegt að Arsenal verði í titilbaráttu í vetur og stefnan verður væntanlega sett á að tryggja sér Meistaradeildarsæti, annaðhvort með því að enda í einu af efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar eða vinna Evrópudeildina eins og Manchester United gerði í fyrra.

Þessi grein birtist fyrst í sérblaði um enska boltann 2. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×