Enski boltinn

Wenger segir að Alexis muni vinna stuðningsmenn á sitt band

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Wenger skipti Sanchez og Giroud saman inná í dag.
Wenger skipti Sanchez og Giroud saman inná í dag. Vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að Alexis Sanchez muni vinna stuðningsmenn liðsins á sitt bandið eftir að nokkrir stuðningsmenn bauluðu á hann er hann kom inná í 3-0 sigri liðsins gegn Bournemouth í dag.

Arsenal var tilbúið að selja Sanchez sem vildi ólmur losna frá félaginu í sumar tækist liðinu að ganga frá kaupunum á Thomas Lemar frá Mónakó.

Þegar það var ljóst að ekkert yrði úr því ákvað Arsenal að hafna tilboðinu í Sanchez en hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum.

Var þetta fyrsti heimaleikur hans á tímabilinu en hann kom inn af bekknum eftir langt ferðalag úr landsleikjahlénu.

Nýttu sumir stuðningsmenn það til að láta í ljós skoðun sína á framferði Sanchez í sumar sem nýtti fjölmiðla í Síle til að setja pressu á Skytturnar.

„Hann er einbeittur á verkefnin framundan, ensku deildina og Evrópudeildina og hann er ennþá með sama hugarfar í öllum leikjum. Hann er aðeins á eftir hinum þegar kemur að forminu en hann mun ná hinum fljótlega,“ sagði Wenger og bætti við:

„Hann verður vonandi kominn í sitt besta stand fljótlega og þá mun hann vinna stuðningsmennina aftur á sitt band. Hann verður ekki lengi að því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×