Skoðun

Sjálfbært laxeldi

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar
Framleiðsla á eldislaxi á undir högg að sækja í mörgum löndum vegna lúsafaraldurs og sjúkdóma í opnum sjókvíunum, sem gerist þrátt fyrir lúsaeitrun og mótvægisaðgerðir. Þó nýjustu tækni sé beitt, þá eru nýleg dæmi um að kvíar hafi eyðilagst vegna mannlegra mistaka, veðurs og sjólags og hundruð þúsunda laxa sloppið. Í Noregi eru einstakir villtir laxastofnar í mörgum laxveiðiám að hverfa vegna erfðamengunar við eldislax. Hér á Íslandi er reynslan sú sama; fiskur sleppur, erfðamengun og lúsin herjar.

Í nýlegu áhættumati Hafrannsóknastofnunar um laxeldið eru leiðir nefndar til að lágmarka skaðvænleg umhverfisáhrif, og að ásættanlegur fjöldi eldislaxa verði að hámarki 4% laxa í veiðiám og laxeldi sé ekki í nálægð við laxveiðiár. Talið er að íslenski laxastofninn sé um 120 þúsund fiskar og 4% eru því allt að fimm þúsund eldislaxar sem svamli um í íslenskum laxveiðiám með óhjákvæmilegri erfðablöndun. Skaðvænleg áhrif geta náð til allra veiðiáa landsins samkvæmt áhættumatinu og nýrri skýrslu Hafró, en árið 2003 slapp fiskur frá Norðfirði, sem veiddist í ám í Vopnafirði og víðar. Hér er teflt á tæpasta vað, enda sýnir reynslan að þrátt fyrir ofangreind viðmið er yfirvofandi hætta á óafturkræfu tjóni.

Laxeldi í opnum sjókvíum er ekki sjálfbært og mengun frá því skaðar lífríkið. Í Alaska og Svíþjóð hefur eldi í opnum sjókvíum verið bannað af þessari ástæðu. Í Noregi hefur frekari útgáfa leyfa fyrir laxeldi í opnum sjókvíum verið stöðvuð og rannsóknir stórefldar með stefnu á lokuð eldiskerfi sem hafa langtum minni áhrif á umhverfið. Ætla Íslendingar að hefja sókn í laxeldi með úreltum aðferðum með tilheyrandi fórnarkostnaði fyrir náttúruna og búsetuna víða í sveitum landsins? Eða vera í fararbroddi um að virkja bestu tækni í boði sem hefur sjálfbærni og virðingu við náttúru og fólk að leiðarljósi með landeldi eða eldi í lokuðum sjókvíum? Eigum við að sætta okkur við að Norðmenn hefji stórbrotið eldi í íslenskum sjó með aðferðum, sem þeir sjálfir stefna á að leggja af innan fárra ára?

 

Höfundur er stjórnarmaður í Landssambandi veiðifélaga.




Skoðun

Sjá meira


×