Innlent

Þórdís svarar Eiríki: „Hrútskýringar þínar væru afar vel þegnar“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þórdís Elva segir að Eiríkur sé hluti af vandamálinu
Þórdís Elva segir að Eiríkur sé hluti af vandamálinu
Frétt Eiríks Jónssonar um klæðaburð Kolbrúnar Benediktsdóttur hefur vakið mikla athygli í dag. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir birti mynd af sér í opinni færslu á Facebook í dag með skilaboðum til Eiríks.

„Hey Eiríkur Jónsson, værirðu til í að senda mér lista yfir störfin sem ég má sinna í þessum bol? Mætti ég t.d. klæðast honum í Druslugöngunni til að mótmæla kynbundnu ofbeldi, en ekki ef ég ynni að sakamáli sem byggði á kynbundnu ofbeldi? Hrútskýringar þínar væru afar vel þegnar,“ skrifaði Þórdís Elva.

Eiríkur skrifaði í athugasemd við myndina: „Þú mátt klæðast hverju sem er og saksóknarar líka. Fréttin var lesendabréf.“

Þórdís Elva var þó snögg að svara honum: „Ef þú velur að birta nafnlaust lesendabréf sem lýsir kvenfyrirlitningu, og tekur þér auk þess tíma í að velja ljósmynd til að fylgja með því, sem hlutgerir eina færustu konu íslensks réttarkerfis, þá ertu ekki bara sendiboðinn, Eiríkur. Þá ertu hluti af vandamálinu.“

„Þetta endurspeglar ekki á neinn hátt mínar skoðanir,“ segir Eiríkur í samtali við Vísi. Hann segist ekki hafa íhugað að taka færsluna úr birtingu.

„Þetta er ekki skoðun mín, heldur póstur sem ég fékk. Hann var birtur sem lesendabréf.“ Eiríkur segir að lesendabréf séu birt daglega á síðunni en hann birti samt ekki allt sem hann fær sent. „Bara svona það sem mér lýst á,“ útskýrir Eiríkur.

„Ég botna ekkert í því, þetta er ekki mín skoðun, það stóð hvergi,“ svarar Eiríkur aðspurður um viðbrögðin sem fréttin fékk í dag.

Eins og Vísir sagði frá fyrr í dag hafa margir tjáð sig um þessa umdeildu frétt. Jón Gnarr fyrrum borgarstjóri var einn þeirra sem birti mynd af sér á Twitter með skilaboðum til Eiríks.


Tengdar fréttir

Brjóstaumfjöllun harðlega gagnrýnd

Það er náttúrulega hneyksli að það geti sést að konur séu með BRJÓST. Hvílíkur dónaskapur! Hvað er næst, berir ökklar?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×