Handbolti

Meiðsli herja enn á herbúðir Hauka

Ivan Ivkovic var leystur undan samningi vegna vandræða utan vallar.
Ivan Ivkovic var leystur undan samningi vegna vandræða utan vallar. Vísir/Anton
Enn ein meiðslin herja á herbúðir Hauka í Olís-deild karla í handbolta.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson, hægri hornamaður Hauka í Olís-deild karla í handbolta, meiddist í leik gegn Aftureldingu í Hafnafjarðarmótinu í fyrradag. Brynjólfur lék stöðu hægri skyttu í leiknum, en mikil meiðsl hafa háð herbúðir Hauka á undirbúningstímabilinu.

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, sagði í viðtali á RÚV að óttast sé að Brynjólfur hafi slitið liðþófa í hné og talið er að hann geti verið allt að tveimur mánuðum frá keppni.

Halldór Ingi Jónsson var fenginn til Hauka frá FH á dögunum til þess að auka breiddina hægra megin á vellinum en hann er nú þá eini heili örvhenti leikmaður Hauka eins og staðan er í dag.

Leonharð Þorgeir Harðarson og Aron Gauti Óskarsson, einnig örvhentir leikmenn Hauka, meiddust í æfingaleik fyrr í mánuðnum og verða frá í einhvern tíma.

Ásamt því hafa Haukar misst mikilvæga leikmenn úr liði sínu en þeir Guðmundur Árni Ólafsson og Elías Már Halldórsson, sem báðir eru örvhentir, hættu í handbolta eftir tímabilið í fyrra.

Hávaxna skyttan, Ivan Ivkovic, var leystur undan samningi vegna vandamála utan vallar og leikstjórnandinn skemmtilegi Adam Haukur Baumruk greindist með einkirningssótt og gæti það þýtt að hann missi af öllu tímabilinu hjá Haukum.

Fyrsti leikur Hauka í Olís-deildinni er þann 10. september á heimavelli þeirra þar sem að ÍR-ingar, sem eru nýliðar í deildinni, koma í heimsókn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×