Innlent

Helgi Hrafn furðar sig á gráu flóttamannagríni Vakurs

Jakob Bjarnar skrifar
Helgi Hrafn segir erfitt að átta sig á því hvenær öfgafólk er að grínast. Valdimar Jóhannesson og hans fólk hjá Vakri telur að um einskonar svikamyllu sé að ræða þegar kostnaðurinn vegna hælisleitenda er annars vegar.
Helgi Hrafn segir erfitt að átta sig á því hvenær öfgafólk er að grínast. Valdimar Jóhannesson og hans fólk hjá Vakri telur að um einskonar svikamyllu sé að ræða þegar kostnaðurinn vegna hælisleitenda er annars vegar.
Samtökin Vakur – samtök um evrópska menningu, sem þekktust eru fyrir að hafa staðið fyrir komu Robert Spencers hingað til lands, birtu á Facebooksíðu sinni frétt, eða fréttalíki þar sem fjallað er um tímamót í flóttamannahjálp Rauða krossins.

„Fyrstu flóttamennirnir frá Kekistan eru komnir til Vestmannaeyja,“ segir í „fréttinni“ og er þar vitnað í Arndísi A.K. Gunnarsdóttur lögfræðing hjá Rauða krossinum. „Þetta eru nefnilega alvöru flóttamenn, þeir koma á gúmmíbátum yfir hafið, eftir miklar þrautir, en fljúga ekki til landsins með WOW Air eða Flugleiðum eins og hælisleitendur sem flýja nágrannalöndin okkar,“ segir Arndís, samkvæmt „fréttinni“.

Myndin sem fylgir byggir á frosknum Pepe sem á að hafa tiltekna táknræna merkingu, sem farið er í saumana á hér.

Einnig er vitnað í Helga Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmann, sem nú er sagður starfa sem túlkur í téðri frétt. „ég er búinn að kynna mér þetta mál helvíti mikið,“ er Helgi Hrafn látinn segja í fréttinni.

Kostnaðurinn vegna hælisleitenda

Ef rýnt er í inntakið vísar það væntanlega til kostnaðar sem til er kominn vegna vegna hælisleitenda; hann fer fyrir brjóstið á þeim hjá samtökunum, en formaður þeirra er Valdimar Jóhannesson.

Í athugasemd sem fylgir myndinni segir að í fréttatilkynningu frá Eurostat Evrópusambandsins ... „17. mars s.l. sóttu alls 1.105 manns um ,,alþjóðlega vernd" á Íslandi árið 2016. Þar af voru 460 ,,hælisleitendur" frá Makedóníu (42%), 230 (21%) frá Albaníu -- öryggum löndum sem eru vinsælir ferðamannastaðir í Suðuraustur-Evrópu -- og 75 (7%) frá Írak. 63% hælisleitenda eru því frá Makedóníu og Albaníu. Mest ungir karlmenn. Ásmundur Friðriksson þingmaður segist hafa heyrt að kostnaður vegna móttöku hælisleitenda á Íslandi verði í ár 3-6 milljarðar króna. Það sé á við ein til tvö Dýrafjarðargöng. Í fyrra var það um 2 milljarða. Þetta hefur náttúrlega ekkert með „flóttamannahjálp“ að gera.“

Erfitt að átta sig á því hvernær öfgamenn eru að grínast

Vísir spurði Helga Hrafn hvað honum þætti um það að vitnað væri í hann með þessum hætti?

„Það er ákveðið einkenni öfga að erfitt er að átta sig á því hvenær fólk er að grínast og hvenær ekki. Þegar málflutningurinn er orðinn svo mikil steypa að maður beinlínis er ekki viss um að viðkomandi raunverulega trúir því eða ekki, sem hann er að segja. Þessi frétt er greinilega vitleysa, en miðað við málflutninginn hjá þeim hingað til velti ég því fyrir mér hversu stór hluti þeirra sem les þetta telji vera alvöru á ferð,“ segir Helgi Hrafn.

Hvað er fyndið í þessu?

Þingmaðurinn fyrrverandi kippir sér ekki upp við þetta, þó honum séu lögð orð í munn, en telur þetta þó allrar athygli vert, til að mynda það að hann kemur ekki auga á fyndnina sem upp er lagt með.

„Síðan velti ég fyrir mér, fólkið sem sér að þetta er vitleysa, hvað finnst því fyndið við þetta? Ég skil ekki hvers vegna einver sem er á þeirri skoðun sem Vakur boðar ætti að hlæja að þessari frétt? Hvað er fyndið? Að þetta séu sjö milljarðar? Að þau komi frá Svíþjóð? Að þau komi á gúmmíbát yfir hafið? Eða leggja mér orð í munn, að þetta verði allt í lagi? Hver er satíran“ spyr Helgi Hrafn og veltir fyrir sér hinum ýmsu möguleikum en sér ekki grínið sama hvað hann reynir.

Enginn áhugi á staðreyndum

Helgi Hrafn fær ekki betur séð en að þetta hafi þann eina tilgang að búa til ranghugmyndir um málaflokkinn, brengla umræðuna.

„Ég hef aðeins skoðað málflutning þeirra hjá þessum samtökum og þar virðist vera lítill áhugi á að fjalla um hælisleitendamálin út frá raunveruleikanum. Þegar þeim er bent á staðreyndir sem eru öndverðar málflutningi þeirra, þá ýmist hunsa þau það eða þræta fyrir það, einhverju sem hægt er að fletta þessu upp. Það er eins og það sé enginn áhugi á að málflutningurinn sé í tengslum við raunveruleikann heldur snýst hann um að tjá einhverjar tilfinningar og berjast fyrir einhverjum málstað óháð því að hann sé réttur.“

Fram sett til að brengla umræðuna

Helgi Hrafn bendir á að það sé svo að enginn sé ánægður með stöðuna í þessum málaflokki. Enda er flóttamannakrísa á heimsvísu. Auðvitað á að hlusta á áhyggjur þess fólks sem óttast þessa miklu fólksflutninga. „En það ber bara svo mikið á því og sérstaklega hjá samtökum eins og þessum, að áhyggjurnar og gagnrýnin hjá þessum aðilum er ekki byggð á raunveruleika eða sannleika. Skeytingarleysi gagnvart því hvað er satt er ráðandi og þá verða samtöl ekki uppbyggileg.“

Helgi Hrafn segir að því miður þá virðist þetta sett fram gagngert til að valda misskilningi, fyndin fari milli skips og bryggju eins og oft vill verða þegar í hlut á fólk sem er einsýnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×