Lífið

Víkingar í afmælisskapi

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Upphaflega var Rimmugýgur fyrst og fremst hugsað sem bardagafélag en í tímans rás hefur starfsemin þróast og snýst núna líka um handverk, bogfimi, tónlist og fræðslu. MYND/ÞORSTEINN R. INGÓLFSSON
Upphaflega var Rimmugýgur fyrst og fremst hugsað sem bardagafélag en í tímans rás hefur starfsemin þróast og snýst núna líka um handverk, bogfimi, tónlist og fræðslu. MYND/ÞORSTEINN R. INGÓLFSSON

Víkingafélagið Rimmugýgur fagnar 20 ára afmæli með veglegri víkingahátíð um helgina. Bardagasýningar, handverksmarkaður, víkingaskóli barnanna, bogfimi og tónlist eru á meðal þess sem verður á dagskránni.

„Við ætlum að setja upp víkingahátíð og leika okkur á Víði­staða­túninu í Hafnarfirði í tilefni þessara tímamóta. Þar verða ýmsar óvæntar uppákomur, auk þess sem hægt verður að fræðast um lifnaðarhætti víkinga og fylgjast með þeim í leik og starfi. Erlendir víkingar eru á leið til landsins og ætla að vera með okkur á hátíðinni en allir eru velkomnir og gaman væri að sjá sem flesta,“ segir Hafsteinn Kúld Pétursson, jarl Rimmugýgjar, sem er elsta og stærsta starfandi víkingafélag landsins.

Bogfimi er snar þáttur í starfsemi Rimmugýgjar. MYND/ÞORSTEINN R. INGÓLFSSON

Tvö hundruð víkingar
Hafsteinn er einn stofnfélaga Rimmugýgjar en fyrir tveimur áratugum komu saman átta vinir í þeim tilgangi að stofna víkingafélag. Það hefur vaxið og dafnað síðan þá og hefur nú um tvö hundruð félaga.

„Þetta byrjaði allt með Iðju, víkingahátíð sem var haldin árið 1995 í Hafnarfirði. Fljótlega eftir hana fórum við vinirnir að velta fyrir okkur hvort það væri grundvöllur fyrir víkingafélagi hér á landi. Tveimur árum síðar, sumarið 1997, létum við slag standa og stofnuðum Rimmugýgi formlega. Til að byrja með var Rimmugýgur fyrst og fremst hugsað sem bardagafélag en í tímans rás hefur starfsemin þróast og snýst núna líka um handverk, bogfimi, tónlist og fræðslu. Innan Rimmugýgjar er fólk sem hefur mikla þekkingu á handverki og hefur deilt henni með öðrum. Þetta handverk á rætur sínar að rekja til tíma víkinga og felst einna helst í vefnaði og vattarsaumi. Víkingarnir prjónuðu ekki á sama hátt og gert er í dag heldur notuðu saumspor sem kallast vattarsaumur eða nálbinding en þá er prjónað með einni nál,“ upplýsir Hafsteinn en hann hefur alla tíð verið áhugasamur um víkinga og lifnaðarhætti þeirra.

„Afi minn vakti áhuga minn á þessum fornu köppum. Íslendingasögurnar voru honum hugleiknar og hann kunni margar þeirra utanbókar. Hann sagði mér þessar sögur þegar ég var lítill og út frá þeim þróaðist þessi áhugi á víkingunum,“ rifjar Hafsteinn upp en öxin Rimmugýgur kemur fyrir í Njálu og merkir bar­daga­tröll.

Um helgina verður heljarinnar víkingahátíð á Víðistaðatúni. MYND/ERNIR

Víkingar á ferð og flugi
Frá vori og fram á haust ferðast félagar Rimmugýgjar á milli víkingahátíða á Norðurlöndunum og allt austur til Póllands, auk þess að heimsækja innlendar víkingahátíðir. Vetrarstarfsemin fer bráðlega í gang og hvetur Hafsteinn alla áhugasama til að mæta í klúbbhúsið Straum í Hafnarfirði sem er opið alla laugardaga yfir vetrartímann.

„Í vetur verður þétt dagskrá hjá okkur nær alla daga vikunnar. Við æfum bardagalistir í bílakjallaranum undir verslunarmiðstöðinni Firði tvö kvöld í viku. Þar er frábær aðstaða og mikil stemning í ætt við kvikmyndina Highlander. Við gerum þá kröfu að bardagamenn séu orðnir 16 ára og þegar þeir hafa náð 18 ára aldri mega þeir taka þátt í bardagasýningum á vegum félagsins. Við erum með um fjörutíu bogmenn á okkar vegum sem æfa í Bogfimi­setrinu og svo erum við með kór sem samanstendur af hæfileikaríku söng- og tónlistarfólki. Það er því mikið félagslíf í Rimmugýgi og mikið um að vera,“ segir Hafsteinn sem býst við mikilli stemningu á Víðistaða­túni um helgina.

Afmælishátíðin á Víðistaðatúni hefst klukkan 13 bæði laugardag og sunnudag og stendur fram eftir degi. Allir eru velkomnir og aðgangseyrir er enginn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira