Lífið

Máli útvarpsmanns gegn Taylor Swift vísað frá

Kjartan Kjartansson skrifar
Taylor Swift var sökuð um að hafa valdið atvinnumissi útvarpsmanns með því að segja frá kynferðisáreitni hans.
Taylor Swift var sökuð um að hafa valdið atvinnumissi útvarpsmanns með því að segja frá kynferðisáreitni hans. Vísir/Getty
Dómari í Denver í Bandaríkjunum hefur vísað frá kæru útvarpsmanns gegn poppstjörnunni Taylor Swift. Útvarpsmaðurinn sakaði Swift um að hafa kostað sig starf sitt þegar hún vændi hann um að hafa áreitt sig kynferðislega árið 2013.

David Mueller, fyrrverandi útvarpsmaður sem Swift segir að hafi káfað á berum afturenda sínum í myndatöku fyrir fjórum árum, krafði söngkonuna um þrjár milljónir dollara fyrir atvinnumissi í kjölfar ásakana hennar.

Málinu gegn Swift var vísað frá í gær vegna skorts á sönnunum á að hún hafi persónulega reynt að fá Mueller rekinn. Hún eða fulltrúar hennar kvörtuðu til útvarpsstöðvarinnar sem Mueller vann hjá yfir framferði hans. Útvarpsstöðin rak hann í kjölfarið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Kynferðisbrotsmálið heldur áfram

Eftir að Mueller kærði Swift, kærði hún Mueller á móti fyrir kynferðislega áreitni og krafðist eins dollara í skaðabætur.

Swift segir að Mueller hafi gripið í afturenda sinn þegar hún samþykkti að sitja fyrir á mynd með honum og kærustu hans baksviðs á tónleikum í Denver árið 2013. Hann hefur hafnað því. Swift bar vitni á fimmtudag og sagði Mueller hafa gripið í sig.

Washington Post segir að málið haldi þó enn áfram en Mueller sakaði einnig Andreu Swift, móður Taylor, og Frank Bell, kynningarstjóra, um að hafa valdið því að hann var rekinn. Kæra Swift um kynferðisáreitni Mueller stendur einnig ennþá.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×