Innlent

Veiðiþjófur gleymdi allri ensku þegar lögreglan mætti á svæðið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Laxar eru ekki óalgeng sjón í Glannafossi.
Laxar eru ekki óalgeng sjón í Glannafossi. Aðsend
Franskur ferðamaður var staðinn að verki við spúnaveiðar úr laxastiganum við Glanna í Norðurá í gærkvöldi.

Veiðivörðurinn Magnús Fjeldsted segir í samtali við Skessuhorn að sér hafi verið gert viðvart um tvo menn á tíunda tímanum og hafi þá haldið á staðinn. Magnús gerði lögreglu jafnframt viðvart og kom hún og tók skýrslu af manninum.

Magnús segir að hinn franski hafi verið fullmeðvitaður um að hann hafi verið að brjóta lög.

„Þegar honum var tilkynnt um að þetta yrði lögreglumál skyldi hann allt í einu ekki stakt orð í ensku,“ segir Magnús í samtali við Skessuhorn og bætir við að lögreglan hafi því rætt við manninn með aðstoð þýðingarforritsins Google Translate.

Að sögn Magnúsar mun veiðifélagið að öllum líkindum leggja fram kæru eins og tíðkast í svona málum og megi maðurinn búast við hárri fjársekt áður en hann heldur úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×