Innlent

Óumflýjanlegt að miðaverð í flugrútuna hækki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugrútan ferjar farþega milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.
Flugrútan ferjar farþega milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. vísir/anton brink.
Miðaverð í flugrútuna milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins mun hækka í kjölfar útboðs Isavia á aðstöðu fyrir hópbifreiðar við flugvöllinn. Gjald fyrir aðstöðuna hefur sexfaldast, að því er fram kemur í frétt Túrista.is, en framkvæmdastjóri Kynnisferða segir verðhækkun óumflýjanlega.

Farmiði í flugrútuna milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins kostar 2500 krónur. Sérstakt farþegagjald Isavia nemur 173 krónum af seldum miða, Ríkissjóður fær 11 prósent í formi virðisaukaskatts og Kynnisferðir, sem reka rútuna, halda eftir 2100 krónum af hverjum seldum miða.

Nú verður breyting þar á en í nýafstöðnu útboði buðust Kynnisferðir „til að greiða Isavia 41,2 prósent af veltu flugrútunnar fyrir áframhaldandi veru í og við flugstöðina,“ að því er segir í frétt Túrista.is. Þetta er sexfalt hærra gjald en Kynnisferðir greiða nú fyrir aðstöðu við flugstöðina. Þá jafngilda þessi 41,2 prósent rúmlega þúsund krónum af hverjum seldum miða miðað við núverandi verðskrá Flugrútunnar.

Krafan að gjaldtakan skili sér í betra umhverfi fyrir viðskiptavini

Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir í samtali við Túrista.is að samningar hafi enn ekki náðst við Isavia en hækkun á miða í flugrútuna sé þó óumflýjanleg.

„Kynnisferðir munu fara í vöruþróun samhliða nýjum samningi sem gerir þjónustuna í kringum Flugrútuna enn betri. Óumflýjanlegt er að miðaverð hækki og þar sem nýtt gjald mun færa Isavia talsverðar tekjur mun krafa okkar vera að slík gjaldtaka skili sér í betra umhverfi fyrir okkar viðskiptavini," segir Kristján.

Hópbílar áttu næsthæsta útboðið en aðeins er pláss fyrir tvö rútufyrirtæki fyrir framan flugstöðina á Keflafíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×