Innlent

Ófrjósemisaðgerðir ungra kvenna: „Ég þurfti að ýta rosalega mikið á eftir þessu“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Klemmur eru settar á eggjastokka eða þeir klipptir í sundur.
Klemmur eru settar á eggjastokka eða þeir klipptir í sundur. Vísir/Getty
Löggjöf um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir var sett árið 1975 og hefur lítið sem ekkert breyst síðan.

Þar kemur meðal annars fram að einstaklingi sé heimilt að fara í ófrjósemisaðgerð sé hann eða hún orðin 25 ára og hafi að vel ígrunduðu máli óskað eftir því. Margir hafa gagnrýnt ákvæði um aldurstakmarkið og telja það barn síns tíma.

Ferlið var ekki einfalt

Ingibjörg Eyfjörð Hólmgeirsdóttir, tveggja barna móðir, gekkst undir aðgerðina rétt fyrir 25 ára afmælið sitt. Aðgerðin var gerð í kjölfar keisaraskurðar. Ingibjörg segir ferlið ekki hafa verið einfalt.

„Fyrst var ég ekki tekin alvarlega þegar ég minntist á þetta. Ég byrjaði á því að tala við ljósmóðurina mína mjög snemma á meðgöngu og hún eiginlega ýtti þessu í burtu og skipti um umræðuefni; þetta væri ekkert sem þyrfti að ræða strax,“ segir Ingibjörg í samtali við Vísi.

Ingibjörg segir að ljósmóðirin hafi loks bent henni á að tala við fæðingarlækni eftir að hafði beðið nokkrum sinnum um að fá að komast í aðgerðina.

„Fæðingarlæknirinn spurði mig örugglega svona tíu sinnum hvort þetta væri í alvörunni eitthvað sem ég vildi gera, þetta væri svo varanlegt. Hvort ég vildi ekki hugsa aðeins málið en þau tóku mig alveg alvarlega en ég þurfti að ýta rosalega mikið á eftir þessu,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg nefnir að hún hafi fundið frá læknunum að þetta væri ekki eitthvað sem þau myndu ráðleggja henni að gera.



Þurfti „alvöru ástæður“

Ingibjörg segir að hún hafi þurft að rökstyðja ákvörðun sína og sanna það að þetta væri í raun hennar vilji. Hún nefnir að beðið sé eftir „alvöru ástæðum“ fyrir því að vilja gangast undir aðgerðina.

Ingibjörg ræddi fyrst um reynslu sína haustið 2016 og fékk í kjölfarið mjög sterk viðbrögð. Hún segir margar konur hafa leitað til sín og sagt frá reynslu sinni af því að fá að fara í ófrjósemisaðgerð.

„Það voru örugglega alveg sjö eða átta konur sem höfðu samband við mig sem höfðu fengið neitun út af aldri. Ein sem hafði samband við mig átti við geðræn vandamál að stríða og átti eitt barn fyrir en hún fékk neitun af því hún var 22 eða 23 ára,“ segir Ingibjörg.



Þarft að lifa með ákvörðuninni

Hún telur að það þurfi að endurskoða kerfið.

„Já mér fyndist að það ætti að endurskoða þetta út af því að ef að þú tekur þessa ákvörðun þá þarftu bara að lifa með henni. Þú þarft bara að taka ábyrgð á þínum ákvörðunum og ef þú tekur þessa ákvörðun og gerir þetta og endar svo með því að sjá eftir því,“ segir Ingibjörg.  Hún nefnir að hún sé svo sannarlega sátt með sína ákvörðun.



Breytingar á löggjöfinni

Í mars 2016 skipaði fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, nefnd með það að markmiði að endurskoða löggjöfina. Þar kemur fram að aldurstakmarki aðgerðarinnar verði breytt og það lækkað niður í átján ára aldur sem jafnframt er lögræðisaldur. Algengast er að konur fari í aðgerðina á aldrinum 35 til 44 ára.  

Í núverandi löggjöf er ákvæði um undanþágur frá aldurstakmarkinu. Er meðal annars nefnt að kona fái undanþágu ef henni sé hætta búin af meðgöngu og fæðingu. Nefndin stefnir á að halda undanþáguákvæðinu inni. 

Samkvæmt talnabrunni landlæknis hefur ófrjósemisaðgerðum hjá konum fækkað í gegnum árin. Í fyrra voru þær 117. Algengara er að karlmenn fari í slíkar aðgerðir og skráðar voru 508 ófrjósemisaðgerðir á körlum í fyrra.

Ingibjörg segist sátt með sína ákvörðun.Ingibjörg

Eina aðgerðin með lögbundu aldurstakmarki

Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir Kvennadeildar Landspítalans, segir í samtali við Vísi, að þetta sé eina aðgerðin þar sem aldurstakmark sé bundið í lögum.

„Samkvæmt lögum er þetta eina aðgerðin sem er með aldurstakmarkanir síðan eru náttúrulega lýtaaðgerðir en það er tengt því að fólk sé sjálfráða og síðan hvað læknar telja að sé rétt að gera,“ segir Kristín í samtali við Vísi.

Hún segist ekki vita hvers vegna hafi verið miðað við þennan aldur og segist ekki hafa sérstaka skoðun á því hvort aldurstakmarkið sé tímaskekkja.

„Við fylgjum bara lögunum og getum ekki gert neitt annað,“ segir Kristín.

 

Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir Kvennadeildar, segir að læknar séu bundnir löggjöfinniKristín Jónsdóttir

Hægt að senda málið til Landlæknis

Kristín segir að ef kona undir lögaldri, sem eigi jafnvel börn, vilji fara í aðgerð, þá þurfi að skoða það tilfelli sérstaklega.

„Yfirleitt koma þær ekki til okkar. Þær leita fyrst til sérfræðinga út í bæ, annað hvort heimilislæknis eða sérfræðings. Í lögunum stendur að það er nefnd á vegum Landlæknisembættisins sem sker úr um mál sem eru eitthvað óljós. Það er hægt að bjóða upp á að erindið verði sent til þessarar nefndar sem mun þá fjalla um það. Það er í rauninni eina ráðið sem ég get gefið. Enginn hér hjá okkur má gera þessa aðgerð nema þessi nefnd sé búin að segja já,“ segir Kristín.

Hún nefnir að ekki sé algengt að mál slík mál fari til nefndarinnar. Fólk bíði einfaldlega frekar.

Kristín segir að fyrir aðgerð séu konur spurðar út í hvort þær séu alveg vissar að þær vilji fara í aðgerðina.

„Auðvitað spyr maður út í það því við vitum að aðstæður hjá mörgum breytast. Konur skilja og fá nýjan maka og vilja þá kannski bæta við öðru barni. Þannig að við ráðleggjum oft ungum konur að fá sér frekar getnaðarvörn sem er varanleg en er þó hægt að fjarlægja. Hormónalykkjan er mjög algeng,“ segir Kristín.

Kristín segir að ófrjósemisaðgerðir sem gerðar séu á konum felist í því að eggjastokkar séu teknir í sundur eða klemmdir saman, en það feli í sér að ekki sé hægt að snúa til baka.



Konum beint í glasafrjóvgun

Áður fyrr hafi konum verið boðið að láta tengja aftur eggjastokka en í því felist hætta á að konur gangi með utanlegsfóstur. Þeim konum er því beint á að fara frekar í glasafrjóvgun

„Eftir að glasafrjóvgunin kom og varð í rauninni góð þá beinum við konum frekar þangað í staðinn af því að það er öruggara fyrir þær heldur en að reyna að endurtengja eggjaleiðara,“ segir Kristín.

Hún segir aðgerðina hjá konum vera stærri en hjá körlum en þó sé hún ekki gríðarlega stór hins vegar fylgi vitanlega alltaf einhver áhætta.

Kristín nefnir að þau í faginu hafi ekki mikið orðið vör við þessa umræðu um aldurstakmarkið. Þau séu bundin við lögin og geti ekki gert neitt annað en að fylgja þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×