Lífið

Matcha te gríðarlega vinsælt: „Bragðið er mjög sérstakt og minnir eiginlega helst á gras“

Gyða Dröfn segir að margir áhrifavaldar á Instagram hafi birt myndir af Matcha
Gyða Dröfn segir að margir áhrifavaldar á Instagram hafi birt myndir af Matcha Gyða Dröfn
Matcha te nýtur vaxandi vinsælda hér á landi en það er stútfullt af andoxunarefnum og gefur mikla orku. Vísir ræddi við Gyðu Dröfn Sveinbjörnsdóttir lífsstílsbloggara en hún drekkur bolla af Matcha á hverjum degi. Gyða Dröfn er nýlega búin að ljúka BSc gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík, starfar við markaðsmál og heldur úti vinsælli bloggsíðu.

Gyða Dröfn segir að hún hafi uppgötvað Matcha fyrir einu og hálfu ári síðan en það tók hana ár að byrja að kunna að meta bragðið af því.

„Ég var stödd á kaffihúsi Te & Kaffi, og stelpa sem var með mér pantaði sér Matcha Latte. Mér fannst þessi græni drykkur eitthvað svo ótrúlega spennandi, svo næst þegar ég fór ákvað ég að prófa að panta mér hann, og þannig smakkaði ég hann í fyrsta skipti. Síðan þá er ég búin að vera að færa mig upp á skaftið með Matcha drykkju, og í dag drekk ég Matcha daglega,“ segir Gyða Dröfn og játar að sér hafi fundist bragðið mjög spes í byrjun.

„Bragðið er mjög sérstakt og minnir eiginlega helst á gras. Þó að mér hafi ekki beint fundist það gott í byrjun þá fann ég hvað mér leið vel af því, og í dag finnst mér það ljúffengt. Ég verð að segja að þetta er áunninn smekkur.“

Gyða Dröfn

Stútfullt af andoxunarefnum

Matcha þykir mjög kröftugt te og Gyða segir að einn bolli af Matcha geti innihaldið jafnmikið af andoxunarefnum og finnst í tíu bollum af venjulegu grænu tei.

„Matcha er grænt te, en það er ólíkt öðru grænu tei að því leiti að í staðinn fyrir að brugga te og henda svo laufunum sjálfum, er búið að mylja þurrkuð laufin í fíngert duft. Duftinu er svo blandað við vatn og drukkið, og þannig ertu að drekka te laufin sjálf. Með því að drekka telaufin sjálf þá fara engin andoxunarefni, vítamín eða steinefni til spillis, og þess vegna er Matcha sérstaklega kröftugt. Það getur til dæmis haft góð áhrif á brennsluna, einbeitinguna og almenna vellíðan, en andoxunarefni hjálpa til dæmis ónæmiskerfinu að verjast sjúkdómum og hamla öldrun.“

Matcha laufin koma af sömu plöntu og venjuleg græn te-lauf. Hinsvegar eru matcha laufin látin vera í skugga áður en þau eru týnd, og þannig þarf plantan að búa sjálf til orku þar sem hún fær hana ekki úr sólinni. Þetta er eitt af því sem gerir það að verkum að matcha er svona orkugefandi, og svo auðvitað sú staðreynd að te laufunum er ekki hent heldur drekkur maður þau og því er engum andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum sóað.

Gyða Dröfn

Matcha er að „trenda“ á Instagram

„Matcha er svolítið að "trenda" seinustu misseri, og ég held að það sé jafnmikið Instagram að þakka og því hversu frábær drykkurinn er. Matcha er ótrúlega Instagram-vænn drykkur, og ég er að fylgja mörgum stórum áhrifavöldum sem deila myndum af Matcha. Annars held ég að allir sem byrji að drekka Matcha hljóti að sannfærast um hvað það er frábær drykkur. Það var allavega sem gerði það að verkum að ég byrjaði að drekka það svona mikið,“ segir Gyða Dröfn aðspurð um skyndilegar vinsældir Matcha.

Gyða Dröfn hefur skrifað bloggfærslu um Matcha en hún varð er svo hrifin Matcha að hún fjárfesti í bók um teið.

„Ást mín á matcha varð til þess að þegar ég rakst á Matcha bók í bókabúð erlendis varð ég bara að eignast hana. Bókin inniheldur allskonar fróðleik um matcha, og líka fullt af uppskriftum þar sem matcha er notað. Bestu kaup sem ég hef gert“

Gyða segir að í byrjun hafi hún fengið sér Matcha annað slagið en svo einn daginn hafi hún fundið löngun til að drekka meira af því. Hún keypti sér í kjölfarið Matcha til þess að útbúa sjálf heima.

Gyða Dröfn heldur úti bloggsíðunni gydadrofn.comGyða Dröfn

Bæði orkugefandi og róandi

„Ég drekk alltaf allavega einn bolla á dag, og oftast ekkert meira en það þó ég laumist kannski einstaka sinnum í annan. Þar sem orkan sem ég fæ úr matcha endist lengi finnst mér ég ekki þurfa að drekka það í sífellu. Ég drekk það aðallega sem orkugefandi drykk, en orkan af því er mjög ólík þeirri sem maður fær til dæmis með kaffidrykkju. Orkan úr matcha er mun stöðugri og maður upplifir ekki þetta "crash" eins og stundum vill gerast með koffínneyslu. Ég finn líka mikinn mun á einbeitingunni og ég elska hvað það er orkugefandi en samt róandi á sama tíma.“

Gyða segir að hún sé miklu orkumeiri yfir daginn og haldi einbeitingunni betur eftir að hún byrjaði að drekka Matcha. Í kjölfarið hefur hún dregið mikið úr koffínneyslu.

„Svo hef ég ekki orðið lasin síðan ég byrjaði að drekka matcha daglega. Ég veit ekki hvort að ég get verið viss um að það sé matcha að þakka en ég finn allavega að það hefur ótrúlega góð áhrif á líkamann.“

Gyða er almennt mjög hrifin af tei og drekkur tvo til fjóra bolla á dag til viðbótar við Matcha te.

„Hér heima kaupi ég oftast te í Te & Kaffi, en ég er hrifnust af tei í lausu og það er frábært úrval þar af mismunandi blöndum. Ég hef líka keypt mikið af te erlendis og elska að komast í sérhæfðar tebúðir og prófa mig áfram með mismunandi tegundir.“

Gyða Dröfn

Gerir uppáhalds Matchadrykkinn heima

Til þess að gera sitt eigið Matcha te er nauðsynlegt að eiga nokkra hluti á heimilinu. „Matcha te-duft auðvitað, og svo er mjög gott að eiga bambus písk. Matcha duftið er ekki vatnsuppleysanlegt af sjálfu sér og því þarf alltaf að blanda því vel við vatn svo það verði ekki kekkjótt. Sértilgerðir Matcha bambus pískar hafa reynst mér best, en það er hægt að bjarga sér með hristibrúsum, eða jafnvel litlum mjólkurþeyturum. Á hefðbundinn hátt er Matcha drukkið úr grunnri skál í Japan, en það er alls ekki nauðsynlegt.“

Gyða Dröfn mælir með því að byrjendur prófi sig áfram með Matcha Latte fyrst, þar sem mun auðveldara sé að drekka þa ðen hreint Matcha.

„Ég fæ mér alltaf Matcha Latte með haframjólk þar sem ég reyni að halda mig frá mjólkurvörum. Fyrir þá sem finnst bragðið bara alls ekki gott mæli ég með því að skella því í góðan ávaxtasmoothie til að nýta sér alla kosti þess.“

Gyða Dröfn á allar græjur til þess að útbúa dásamlegan Matcha latte heima hjá sér og segir að það er byrjendasett til Matchagerðar fáist hér á landi.

„Ég nota Matcha duft, skál, bambuspísk og mjólkurflóunarkönnu. Ég hita fyrst vatn í katli upp að suðu, og leyfi því svo að kólna aðeins áður en ég byrja á Matchagerðinni, þar sem of heitt vatn getur bæði soðið Matchaduftið og skemmt virknina í því. Næst sigta ég Matcha í skál á, og blanda örlitlu vatni við svo úr verði þykkt "paste". Næst helli ég svo meira vatni í skálina og byrja að píska Matchað. Það er gert með hröðum W-laga hreyfingum, og þá myndast þykk dásamleg froða. Þegar mjólkin er flóuð helli ég henni samanvið, og stundum bæti ég sætu við drykkinn með sýrópi eða hunangi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×