Innlent

Gylfi og Guttagarður heilla alla Íslendinga

Benedikt Bóas skrifar
Það má búast við íslendingaflóði á leikjum á Goodison.
Það má búast við íslendingaflóði á leikjum á Goodison. NordicPhotos/Getty
„Það er búið að koma mjög mikið af fyrirspurnum að undanförnu. Það eru greinilega mjög margir sem vilja sjá Gylfa spila og mér sýnist að Guttagarður sé málið,“ segir Þór Bæring hjá Gaman Ferðum en hann býður upp á ferðir til Liverpool-borgar ásamt miðum á Goodi­son Park, sem stundum hefur verið nefndur Guttagarður.

Eftir að Gylfi skrifaði undir hjá Everton hefur sannkallað Everton-æði gripið landann. Samkvæmt svörum hjá knattspyrnuversluninni Jóa útherja var lítið til af Everton-búningum en búðin var með alla anga úti til að tryggja sér fleiri treyjur. Síminn stoppaði varla eftir að Gylfi skrifaði undir og eftirspurnin gríðarleg eftir bláa búningnum.

Haraldur Örn Hannesson, formaður Everton-klúbbsins á Íslandi, er staddur á Krít en segir að einhver fjölgun hafi orðið á félagsmönnum. Næsti fundur klúbbsins er eftir leikinn gegn Manchester City á mánudag og býst Haraldur við að Ölver, þar sem klúbburinn hittist til að horfa á leiki, verði kjaftfullt. „Ég geri ráð fyrir að okkar félagsmenn mæti allir á Ölver og stuðningsmenn Gylfa sömuleiðis. Þetta verður trúlega fyrsti leikurinn hans gegn liði sem er spáð góðu gengi. Það má því búast við risamætingu.“ Árgjaldið í klúbbinn er 3.000 krónur en ekki er rukkað fyrir stuðningsmenn yngri en 18 ára.

Þór segir að engir aðrir Norðurlandabúar séu í Everton sem skipti máli því Gaman Ferðir séu í samstarfi við norrænar ferðaskrifstofur um miða á leiki í ensku deildinni.

„Ég geng í þennan lager og fyrst það eru engir aðrir Norðurlandabúar í liðinu þá er ég nokkuð öruggur um miða á Goodison. 

Á síðasta tímabili fóru Svíarnir villt og galið á leiki með Manchester United út af Zlatan Ibrahimovic og einokuðu þar með miðana þangað,“ segir hann. Örskömmu síðar hafði 10 manna hópur keypt sér miða á leik Everton og Watford sem er daginn eftir viðureign Manchester City og Arsenal.

„Það var erfitt að komast til Swansea og fáir sem fóru þangað en það eru mun betri samgöngur til Liverpool þannig að ég sé fram á skemmtilegan vetur,“ bætir hann við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×