Lífið samstarf

Norðlenskur gæðastjóri með meistaragráðu

Ólöf segir Landspítalann ofboðslega gefandi, líflegan og dýnamískan vinnustað.
Ólöf segir Landspítalann ofboðslega gefandi, líflegan og dýnamískan vinnustað.
Mannauðsramminn: Ólöf Elsa Björnsdóttir er gæðastjóri á kvenna- og barnasviði Landspítala og starfar þar að ýmsum umbótaverkefnum. Elsa eins og hún er kölluð hóf störf hjá spítalanum árið 2001, þá nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, en hefur síðan bætt við sig MPH-meistaragráðu í lýðheilsufræði.

"Landspítali er ofboðslega gefandi, líflegur og dýnamískur vinnustaður. Ég hefði sennilega farið í sálfræði eða verkfræði ef hjúkrunarfræði hefði ekki orðið fyrir valinu, en starfið mitt í dag sameinar þessi þrjú fög reyndar á ansi skemmtilegan hátt," segir Elsa. Hún fyllir fjóra áratugi seinna á þessu ári og er með skíðaferð og Lundúnaheimsókn vegna Adele-tónleika á prjónunum af því tilefni. Hún er alin upp í fyrir norðan, nánar tiltekið á Blönduósi og Sauðárkróki, en gekk síðan í Menntaskólann á Akureyri.

"Frítíminn fer aðallega í að sinna fjölskyldunni, en ég á tvo stráka sem eru 4 og 8 ára með eiginmanni mínum sem vinnur hjá Nýherja. Ég hlusta talsvert á tónlist og akkúrat núna er lagið Orðin mín með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni í algjöru uppáhaldi. Ef ég ætti að nefna tvær bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur, þá eru það Billy Elliot og Love Actually. Við búum í Fossvogi, Kópavogsmegin, og strákarnir æfa handbolta með HK og fótbolta með Breiðabliki. Ég hef búið nokkuð víða frá því ég flutti að norðan. Fyrst í Vesturbænum nálægt Háskólanum og seinna í Hlíðunum og Miðborginni. Það er gott að búa í Kópavogi, en ég er staðráðin í að flytja aftur í miðborg Reykjavíkur í ellinni."

Hægt er að skoða fleiri mannauðsramma frá Landspítala hér.

Þessi grein er unnin í samstarfi við Landspítalann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×