Innlent

Óskað eftir aðstoð sérsveitar lögreglu

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Sérsveitin var kölluð út vegna atviks sem kom upp í Útlendingastofnun í Skógarhlíð í gær. Þeir sem biðu eftir afgreiðslu hjá stofnuninni voru lokaðir inni þar til sérsveitarmenn komu á vettvang. Hátt í tuttugu einstaklingar voru lokaðir inni þegar lögregluna bar að garði og segir vitni atburðinn hafa vakið óhug.

„Það er lokað þarna klukkan 12 og þá kemur starfsmaður og stendur við hurðina og henni er læst. Svona um tíu mínútur yfir 12, þegar verið er að afgreiða einn mann, þá hverfa allt í einu afgreiðslumanneskjurnar á bakvið. Stuttu seinna er kallað í kúnnann sem stendur við læsta útidyrahurðina. Þá vorum við, hátt í 20 manns, lokuð inni,“ segir Agnes Vala Bryndal.

Hún segist hafa hugsað: „Guð minn góður, ég vona að maðurinn sé ekki vopnaður.“ 

Enginn hafi sagt henni neitt, fólk sat grafkyrrt.

Þaulæfð viðbrögð

Agnes segir að stuttu eftir að hún heyrði sírenuvæl hafi hún séð sérsveitina og lögregluna birtast í glugganum. Þá hafi starfsmaður komið fram og náð að fanga athygli mannsins sem síðan hafi verið tekinn fastur og færður út. Eftir yfirheyrslu var honum sleppt. Hún segir viðbrögð starfsmanna hafa litið út fyrir að vera æfð.

„Ég dáist alveg að þeim fyrir það en við vorum skilin eftir í mjög mikilli óvissu. Þarna var fullt af fólki og ef þannig hefði verið þá hefði hann getað skaðað fullt af fólki þarna inni,“ bætir Agnes við.

Ekki náðist í forstjóra Útlendingastofnunnar við gerð fréttarinnar.

Fyrirsögn fréttarinnar var breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×