Lífið

Ætlar að láta jarða sig með medalíuna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Steindi og félagar fögnuðu ákaft þegar í mark var komið.
Steindi og félagar fögnuðu ákaft þegar í mark var komið. Vísir/eyþór
Steinþór Hróar Steinþórsson, eða Steindi eins og hann oftast kallaður, er svo stoltur af árangri sínum í Reykjavíkurmaraþoninu í dag að hann ætlar að láta jarða sig með medalíuna.

Steindi hljóp 21 kílómetra á tveimur klukkustundum, þrjátíu mínútum og fjörutíu sekúndum og það gerði hann nánast án þjálfunar. „Ég fór nánast óæfður í það. Ég náði að fara fjórum sinnum út að hlaupa fyrir það,“ segir Steindi um Reykjavíkurmaraþonið.

Steindi lét plata sig í Reykjavíkurmaraþonið eftir að hann hljóp á sig í útvarpsviðtali hjá Sólmundi Hólm með því að segja að tíu kílómetra hlaup væri í raun bara auðvelt verkefni.

Hann segist aldrei hafa fundið fyrir eins miklum sársauka og „kláraði hann þetta á þrjóskunni,“ eins og Steindi komst að orði. Hann var þó ávallt í öruggum höndum því í samfloti með Steinda hlupu slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn. Á meðan á hlaupinu stóð hlustaði hlaupakappinn á íslenskt rapp til að koma sér í gírinn.

Steindi náði að safna 583.261 kr. fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna. Hann segir að það hafi verið sannur heiður að fá að hlaupa fyrir svona góðan málstað.

Í samtali við Vísi segir Steindi að það hefði verið skondið að heyra af því að Guðni forseti hafi sagst hafa „sæmilega trú“ á sér í maraþoninu og ennfremur að allt gæti gerst í þeim efnum þegar hann var spurður út í möguleika Steinda í hlaupinu.

Dóttir og kærasta Steinda tóku á móti honum þegar í mark var komið og segist Steindi, aðspurður, ætla fagna með fjölskyldunni með því að borða ís og láta keyra sig um borgina.

Steindi í góðum félagsskap með slökkviliðsmönnum og sjúkraflutningamönnum sem hlupu einnig fyrir Neistann.Steinþór Hróar

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×