Íslenski boltinn

Félög mega ræða við leikmenn þegar sex mánuðir eru eftir af samningi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stundum þarf bara að ræða málin.
Stundum þarf bara að ræða málin. Vísir/Andri Marinó
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur samþykkt breytingar á félagsskiptareglum hér á landi en þær snúa að reglum um hvenær megi hefja viðræður við leikmenn.

Leikmenn mega nú fara að þreifa fyrir sér þegar hálft ár er eftir af samningi þeirra en aðeins þó með vitund þess félags sem viðkomandi leikmenn eru samningsbundnir. KSÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Ársþing KSÍ árið 2016 samþykkti að skipaður yrði starfshópur til að fjalla um breytingarnar og voru niðurstöður hópsins kynntar á ársþingi KSÍ 2017. Breytt reglugerðarákvæði hafa nú verið samþykkt og munu þau taka gildi þann 16. október 2017.

Eftir breytingar verður félagi heimilt að eiga í samningaviðræðum og skrifa undir samning við leikmann í öðru félagi eftir að sex mánuðir eru til loka samningstíma leikmannsins við sitt núverandi félag.

Þó skal hafa það í huga að félag sem hyggst hefja samningaviðræður við leikmann, eftir að sex mánuðir eru til loka samningstíma hans við sitt núverandi félag, skal þá þegar tilkynna stjórn þess félags, um það skriflega og með sannanlegum hætti áður en samningaviðræður hefjast við leikmanninn.

Sama á við þegar leikmaður hyggst hefja samningaviðræður við annað félag, en þá ber leikmanni að tilkynna stjórn núverandi félags áður en þær viðræður hefjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×