Lífið

Partískúta siglir jómfrúarferð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Skútan sem er 108 fet liggur nú í Reykjavíkurhöfn.
Skútan sem er 108 fet liggur nú í Reykjavíkurhöfn. vísir/laufey
Skútan Amelia Rose mun sigla sína jómfrúarferð í kvöld. „Við erum að plana laugardagsferðir hér í kringum Reykjavíkurhöfnina og þetta er jómfrúarferðin,“ segir Valþór Ólason sem sér um markaðsmál í kringum skútuna.

Jómfrúarferðin hefst með diskóballi. „Dabbi Diskó verður að spila í kvöld. Siglt er í um fjörutíu mínútur og svo er tveggja tíma kokteill um borð og léttar veitingar, svo siglum við inn í höfnina og þá er smá flugeldasýning í höfninni rétt fyrir miðnætti. Síðan leggjum við fyrir utan Bryggjuna Brugghús og förum þar inn,“ segir Valþór.

„Við erum að byrja að markaðssetja bátinn og þetta er hluti af því,“ segir Valþór. En báturinn mun geta boðið ferðir fyrir ferðamenn eða íslensk fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

Amelia Rose er í raun frægur bátur en Hollywood myndin In the blink of an eye sem kom út árið 2009 og skartar Eric Roberts í aðalhlutverki var tekin upp í skútunni og gerist stór hluti myndarinnar á henni.

„Þetta er 108 feta skúta á þremur hæðum með tíu tveggja manna káetum, þetta er fljótandi hótel,“ segir Valþór. Verið að gera káeturnar upp og því byrjað á að bjóða upp á viðburði í efri hlutanum. Ljóst er að möguleikar eru þó til að nýta skútuna í lengri ferðir kringum landið þar sem boðið er upp á gistingu.

Ekki er búið að negla niður hversu oft ferðir verða í boði „Við ætlum að láta landið stjórna því, hvernig þetta verður sótt og annað,“ segir Valþór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×