Lífið

Fórnfýsi, metnaður og samstaða

Sæunn Gísladóttir skrifar
mYND/ÓLAFUR JÓN JÓNSSON
Björgunarsveitirnar vinna óeigingjarnt starf, launalaust, alla daga ársins. Forseti Íslands segir sveitirnar fyrir löngu hafa sannað gildi sitt. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segir lögregluna ekki geta án björgunarsveita verið.

„Björgunarsveitir landsins hafa fyrir löngu sannað gildi sitt,“ segir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

„Það vita þeir best sem lent hafa í voða eða vá.“

Unnar Már Sigurbjörnsson, björgunarsveitarmaður.vísir/stefán
Forsetinn segir að við værum í vanda stödd án björgunarsveitanna. „Útivist til fjalla væri mun meira hættuspil en ella og sömuleiðis ýmis störf til sjávar og sveita. Auk þess sýna félagar sveitanna í verki almennt mikilvægi samstöðu og fórnfýsi, metnaðar og fagmennsku. Samstaða og samhugur er forsenda öflugs samfélags.“

Verkefnið alltaf þess virði

„Þetta er alltaf þess virði. Það er aldrei hægt að segja að eitthvað hafi verið tímasóun, alveg sama hvað maður er að gera. Þó að maður hafi leitað allt höfuðborgarsvæðið að manneskju sem finnst utan þess, er maður samt búinn að sinna því hlutverki að útiloka rosa mikið svæði,“ segir Unnar Már Sigurbjörnsson björgunarsveitarmeðlimur. Hann hefur mest verið í bílaflokki, leitartækniflokki og í drónahópnum.

Unnar segir menn aldrei vita nákvæmlega út í hvað er verið að fara og útköll geti breyst á síðustu stundu. „Í leitinni að Birnu Brjánsdóttir var ég til dæmis á leið að leita að henni, en svo þurftum við skyndilega að fara upp á Helgafell að sækja þar mann sem var slasaður,“ segir hann.

„Það sem björgunarsveitir byggja á er þessi gríðarlega samheldni og það gildir einu hvaðan fólk er af landinu. Það koma allir saman og vinna það verk sem verið er að leitast eftir að vinna. Það gera það allir af heilum hug og eftir bestu getu og það er það sem gildir. Þá skiptir engu máli hvort sveitin er stór eða örsmá, það er þessi samheldni sem stendur upp úr hjá mér.“

Ólafur Jón Jónsson hefur verið drónasérfræðingur í björgunarsveitinni frá árinu 2009.vísir/stefán
Engin kvöð

„Þetta er bara áhugamálið. Þetta er engin skuldbinding því maður hefur ánægju af þessu. Það er ekki hægt að segja að þetta sé einhver kvöð eða slíkt. Svo velurðu í hvert sinn hvort þú mætir eða ekki, þér ber ekki að mæta þó að komi útkall. Þannig að þetta fellur vel með venjulegu lífi hjá fólki,“ segir Ólafur.

Hann er í svæðisstjórn björgunarsveita og kennir meðal annars á dróna. Drónar komu inn í björgunarsveitir landsins fyrir um tveimur árum og þó þeir hafi ekki hingað til verið mjög afgerandi í starfinu eru miklir möguleikar í notkun þeirra að mati Ólafs.

Ólafur segir eitt eftirminnilegasta í starfinu hafa verið sumarið 2010 þegar hann var á hálendisvakt við Sprengisand og bjargaði manni í sjálfheldu í jökulá. „Það var fyrsta og eftirminnilegasta aðgerðin sem ég hef tekið þátt í. Það fór allt saman vel, en það voru mjög krappar kringumstæður, sérstaklega fyrir þann sem stóð í ánni.“

Ólafur hvetur fólk til að gerast meðlimir björgunarsveitar. „Ég vil benda fólki á að þetta er frábær kostur til að gefa af sér til samfélagsins og láta gott af sér leiða.“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinuvísir/ernir
Vill þakka fyrir

„Björgunarsveitir eru afar mikilvægur samstarfsaðili lögreglunnar í landinu. Hvort sem um er að ræða leit að fólki, björgunarstörf, sporleit, óveður, snjóflóðaleit, eftirlit á hálendinu eða aðgerðir til að tryggja öryggi almennings, svo eitthvað sé nefnt, þá eru björgunarsveitirnar ómissandi hvar sem borið er niður.

Björgunarsveitarfólk er reiðubúið til samstarfs allan sólarhringinn, í sjálfboðavinnu, og tilbúið að hlaupa frá sínum daglegu verkefnum án þess að fá endurgjald. Þau hafa yfir að ráða tækjabúnaði sem þau hafa aflað með styrkveitingum og þátttöku almennings og gera þannig mögulegar aðgerðir sem lögreglan gæti ein og sér ekki sinnt.

Björgunarsveitarfólk býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu og fjöldi sjálfboðaliða er slíkur að með atbeina þeirra er unnt að bregðast við verkefnum sem annars væri ekki mannafli til að sinna.

Þá eru ótaldar slysavarnadeildirnar sem hlúa að viðbragðsaðilunum með kærleika, hlýju og fórnfýsi og sinna einnig óeigingjörnu starfi allan sólarhringinn.

Með nýrri aðgerðastjórnstöð höfuðborgarsvæðisins er komin stórbætt aðstaða við stjórnun aðgerða og þar eru björgunarsveitir, ásamt Rauða krossinum, slökkviliði höfuðborgarsvæðis og öðrum aðilum, loks komin með vettvang sem allir geta nýtt til að mæta þeim áskorunum sem viðbragðsaðilar sinna daglega.

Skilaboð lögreglu til björgunarsveita eru einföld: Þakka ykkur fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag í þágu öryggis borgaranna og þeirra sem sækja okkur heim.“

Ekki bara hundur

Í marsmánuði kom Björgunarsveitin Pálínu Ásbjörnsdóttur lögfræðingi til bjargar þegar hundur hennar, Kvika, féll í gjá sem snjór var yfir nálægt Búrfellsgjá.

„Við fengum lögregluna fyrst með útbúnað eins og þeir ætluðu að reyna að bjarga þessu sjálfir en þeir kölluðu svo út björgunarsveitina. Þetta var alveg ótrúlegt, alveg ótrúlega magnað,“ segir Pálína.

Hundurinn var í gjánni í tvo tíma. „Mest af þessum tveimur tímum fór í bið og þeir voru enga stund að ná henni upp. Við hugsuðum að þetta væri nú bara hundur og þá var svo skemmtilegt þegar þeir í björgunarsveitinni sögðu að þetta væri ekki bara hundur heldur fjölskyldumeðlimur. Þeir voru allir hundafólk og þótti sjálfsagt að ná hundinum upp,“ segir hún.

Pálínu var sagt að þetta væri þriðji hundurinn sem björgunarsveitin hefði bjargað upp úr gjá á svæðinu. „Þetta vakti okkur upp í vor, þetta er viðvörun um að vera ekki með börn laus eða dýr á svæðinu, maður sá fyrir sér að börn gætu auðveldalega fallið þarna niður,“ segir Pálína.

Frá björgun Kviku, hunds Pálínu.
Bjargað úr sjálfheldu

Þann 6. nóvember á síðasta ári kom björgunarsveitin bóndanum Reimari Sigurjónssyni frá Felli í Bakkafirði til bjargar þegar hann lenti í sjálfheldu við fossinn Míganda í 200 metra hæð.

„Ég var að elta kind sem heitir Snara í Gunnólfsvíkurfjalli. Ég ætlaði að vera snöggur að ná í hana en úr varð tólf eða þrettán tíma bið á syllu á fjallinu. Ég hringdi sjálfur í Neyðarlínuna og bar upp vandræði mín, svo var ég með talstöð líka og í sambandi við konu neðar í firðinum,“ segir Reimar.

Frá Húsavík og Akureyri og að sunnan komu sérhæfðir klettabjörgunarmenn, ásamt fjölmennu björgunarliði Reimari til bjargar. Hann var í sjálfheldu í samtals um 15 klukkustundir. Björgunarsveitarmenn þurftu að síga niður að Reimari og fylgja honum niður af fjallinu. Reimar segir ómetanlegt að eiga björgunarsveitina að þegar fólk lendir í svona aðstæðum.

Hann segir að þetta sé í fyrsta og eina skiptið sem björgunarsveitin hefur komið honum til bjargar. Reimar hafði tvo hunda með sér sem veittu honum félagsskap og héldu á honum hita. Aðstæður voru leitarmönnum erfiðar á svæðinu og myrkur einnig.

Í kjölfar björgunar færðu Reimar og Dagrún Þórisdóttir, kona hans, Björgunarsveitinni Hafliða björgunarlaun og komu á framfæri einlægum þökkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×