Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - FH 0-0 | Meistararnir töpuðu dýrmætum stigum í titilbaráttunni

Sveinn Arnarsson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifa
Elfar Árni Aðalsteinsson í baráttunni gegn FH fyrr í sumar.
Elfar Árni Aðalsteinsson í baráttunni gegn FH fyrr í sumar. Vísir/Ernir
FH mistókst að komast upp í annað sæti Pepsi-deildar karla eftir að liðið gerði markalaust jafntefli í bragðdaufum leik á Akureyrarvelli í dag.

Þórarinn Ingi Valdimarsson fékk besta færi leiksins á 57. mínútu er hann skallaði sendingu Davíðs Þórs Viðarssonar í ofanverða slánna á marki heimamanna og yfir.

Varamaðurinn Bjarni Þór Viðarsson fékk gott skallafæri í uppbótartíman en hitti ekki markið.

Annars hélt varnarlína KA-manna vel í leiknum en heimamenn, sem höfðu fengið á sig tólf mörk í síðustu fjórum deildarleikjum sínum á undan leiknum í dag, lögðu allt kapp á varnarleikinn og beittu þess í stað skyndisóknum.

Steinþór Freyr Þorsteinsson fékk besta færi KA strax á þrettándu mínútu þegar hann slapp inn fyrir vörn FH eftir sendingu Elfars Árna Aðalsteinssonar. En Gunnar Nilsen sá við honum í markinu.

Emil Lyng komst í ágætt færi í síðari hálfleik en hitti ekki boltann af stuttu færi. Fyrir utan nokkur langskot náðu heimamenn ekki að ógna marki FH-inga frekar.

FH er nú í þriðja sæti deildarinnar með 21 stig, einu á eftir Stjörnunni og níu á eftir Valsmönnum. FH-ingar mæta Val á þriðjudag og fá þá tækifæri að brúa það bil í sex stig.

Eftirsjáin hlýtur þó að vera mikil hjá FH-ingum að eiga ekki þess kost að minnka forystu Vals í fjögur stig á þriðjudag, líkt og tilfellið hefði verið með sigri í dag. Jafnteflið er því talsverður skellur fyrir Íslandsmeistaranna í baráttunni um titilinn við Valsmenn, sem hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu.

Af hverju varð jafntefli?

FH-ingar áttu ekki svar við varnarleik KA í dag. Þeir sendu marga háa bolta inn í teig heimamanna í dag og í tvígang skapaði það hættu við mark heimamanna. En meira var það ekki og sóknarleikur FH-inga olli miklum vonbrigðum í dag.

KA-menn lögðu skiljanlega höfuðáherslu á varnarleik í dag og það skilaði því að liðið hélt hreinu í fyrsta sinn síðan um miðjan júní.

Hverjir stóðu upp úr?

Það var í raun fátt um fína drætti í leik liðsins í dag. Miðverðirnir Callum Williams og Vedran Turkalj, sem lék sinn fyrsta leik fyrir KA í dag, voru öflugir í öftustu línunni og Aleksandar Trninic á miðjunni. Hallgrímur Mar Steingrímsson var duglegur að venju í liði heimamanna.

Steven Lennon var lengi vel eini leikmaður FH með lífsmarki í sóknarleik liðsins en það dró líka af honum í síðari hálfleik. Atli Guðnason kom inn með ágætan kraft af bekknum en það dugði ekki til. Gunnar Nielsen gerði sitt vel í marki FH þegar þess þurfti.

Hvað gerist næst?

FH mætir Val í afar mikilvægum leik um framhaldið í toppbaráttunni. Ef að Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, tekst að leggja sína gömlu félaga í FH að velli er ljóst að það verður afar erfitt að koma í veg fyrir að Valur standi uppi sem Íslandsmeistari, miðað við spilamennsku Valsmanna í sumar.

KA fékk dýrmætt stig í botnbaráttunni í dag og er í áttunda sætinu með sextán stig, fjögur stig frá fallsæti. Nýliðarnir eru ekki lausir við falldrauginn og mæta næst Fjölni í Grafarvoginum í mikilvægum leik. Fjölnir er stigi á eftir í níunda sætinu.

Maður leiksins: Callum Williams, KA

Einkunnir leikmanna má sjá undir flipanum „Liðin“ hér fyrir ofan.

Heimir: Við höfum kastað inn handklæðinu
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Stefán
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði að með jafnteflinu gegn KA á Akureyri í dag er ljóst að FH hafi verið að afhenda Valsmönnum Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu.

FH og KA gerðu markalaust jafntefli og misstu Hafnfirðingar um leið að tækifæri til að skjótast upp í annað sæti Pepsi-deildar karla og minnka forystu Vals á toppnum í sjö stig.

„Þetta er brekka. Með þessu jafntefli þá vorum við að afhenda Valsmönnum titilinn. Ég held að það verði erfitt að ná þeim úr þessu,“ sagði Heimir í viðtali við Svein Arnarsson eftir leik. Heimir játar því að hann sé búinn að afskrifa möguleika FH á Íslandsmeistaratitlinum.

„Við erum búnir að kasta inn handklæðinu.“

Hann segir að leikurinn í dag hafi verið hægur. „Þetta gekk ekkert. Það var alltaf verið að flauta og menn að hlaupa saman. Það var ekkert tempó í þessum leik og örugglega ekki skemmtilegur leikur að horfa á.“

Hann tekur undir þá fullyrðingu að leikur FH og Vals á þriðjudag sé orðinn æfingaleikur fyrir bikarúrslitaleik FH gegn ÍBV um næstu helgi.

„Já, það er nokkuð vel orðað hjá þér. Ætli það sé ekki best að gera það svoleiðis.“

Davíð: Verðum að vinna Val
Davíð Þór Viðarsson.Vísir/Stefán
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, segir að úrslitin á Akureyri hafi verið vonbrigði enda varð FH af mikilvægum stigum í toppbaráttu deildarinnar.

Hann segir að það séu ekkert nema úrslitaleikir hjá FH fram undan í deildinni, ekki síst leikurinn við Val á þriðjudag.

„Það segir sig sjálft að við verðum að vinna þann leik. Ef við vinnum hann þá eigum við enn smá möguleika, þó svo að þetta verður erfitt.“

Davíð sagði að það hafi ekki hallað á annað liðið í dómgæslunni en að það hafi verið mikið flautað í leiknum.

„Mér finnst það stundum vera vandamál að leiknum sé ekki leyft að flæða. Það hlýtur að vera hægt að leyfa honum að ganga aðeins meira og ekki stöðva leikinn í hvert skipti sem menn fara öxl í öxl.“

Davíð hefur ekki áhyggjur af því hversu mikið hefur verið að gera hjá FH á öllum vígstöðum.

„Þetta finnst okkur skemmtilegast og maður er í þessu til að spila leiki. Ég ætla því ekki að kvarta undan því.“

Túfa: Vildum þétta varnarleikinn
Srdjan Tufegdzic.Vísir/Ernir
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var ánægður með að hafa haldið hreinu í dag sem hann taldi mikilvægt eftir síðustu leiki hjá KA.

„Maður vill vinna alla leiki á heimavelli en ég er ánægður með strákana. Öll okkar vinna að undanförnu hefur miðað að því að þétta varnarleikinn. Í dag náðum við góðum varnarleik gegn liði sem ég virði mjög mikið,“ sagði hann.

Vedran Turkalj kom vel inn í vörn KA í dag og átti sinn þátt í því að liðið hélt hreinu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir KA í dag.

„Þetta er góður leikmaður en hann gerði ekki meira en hinir. Liðsvörnin var góð, bæði í öftustu línu og liðinu öllu. Þegar við spilum svona er erfitt að brjóta okkur á bak aftur.“

KA þarf að safna stigum til að forðast fallsvæðið og mætir Fjölni í mikilvægum leik á miðvikudag.

„Ég tel að við getum byggt á þessum leik og gert enn betur.“

Almarr: Númer 1, 2 og 3 var að verjast
Almarr Ormarsson.Vísir/Eyþór
„Menn ætluðu að selja sig dýrt og kannski kom það aðeins niður á fótboltanum. Númer 1, 2 og 3 var að halda hreinu og ég hélt að við myndum ná að skora líka en það gekk því miður ekki,“ sagði Almarr Ormarsson, miðjumaður KA, eftir leikinn í dag.

„Þeir fundu ekki leið í gegnum okkur og byrjuðu því að dæla háum boltum inn á teig, á Flóka aðallega. Við vörðumst því nokkuð vel en hefðu mátt vera aðeins rólegri á boltann þegar við unnum hann. Með smá heppni hefðum við getað potað inn marki.“

Hann segir að KA væri frekar til í að vera í baráttu um Evrópusæti en að forðast fall.

„En þetta er ein jafnasta deild sem ég hef tekið þátt í og afar stutt á milli. Við förum í hvern leik til að ná í þrjú stig og vonandi tekst það á miðvikudag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira