Íslenski boltinn

Heimir afskrifar titilinn: Leikurinn við Val verður æfingaleikur fyrir bikarúrslitin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði að með jafnteflinu gegn KA á Akureyri í dag er ljóst að FH hafi verið að afhenda Valsmönnum Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu.

FH og KA gerðu markalaust jafntefli og misstu Hafnfirðingar um leið að tækifæri til að skjótast upp í annað sæti Pepsi-deildar karla og minnka forystu Vals á toppnum í sjö stig.

„Þetta er brekka. Með þessu jafntefli þá vorum við að afhenda Valsmönnum titilinn. Ég held að það verði erfitt að ná þeim úr þessu,“ sagði Heimir í viðtali við Svein Arnarsson eftir leik. Heimir játar því að hann sé búinn að afskrifa möguleika FH á Íslandsmeistaratitlinum.

„Við erum búnir að kasta inn handklæðinu.“

Hann segir að leikurinn í dag hafi verið hægur. „Þetta gekk ekkert. Það var alltaf verið að flauta og menn að hlaupa saman. Það var ekkert tempó í þessum leik og örugglega ekki skemmtilegur leikur að horfa á.“

Hann tekur undir þá fullyrðingu að leikur FH og Vals á þriðjudag sé orðinn æfingaleikur fyrir bikarúrslitaleik FH gegn ÍBV um næstu helgi.

„Já, það er nokkuð vel orðað hjá þér. Ætli það sé ekki best að gera það svoleiðis.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×