Veður

Spá engri rigningu í Vestmannaeyjum í dag

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Nokkur hlýindi verða um landið allt. Á nokkrum stöðum verður hins vegar hellidemba.
Nokkur hlýindi verða um landið allt. Á nokkrum stöðum verður hins vegar hellidemba. Veðurstofa Íslands, skjáskot

Spáð er hægri breytilegri átt í dag um land allt. Þá virðist sem hitastigið á landinu öllu verði á bilinu 10 til 15 stig og nokkuð bjart verður á köflum.

Þó mun vera nokkur vindur vestanlands eða allt að 10 metrar á sekúndu. Svo virðist sem nokkuð verði um skúrir í dag og nokkrir munu þurfa að vera með pollafötin innan handar þar sem búist er við hellidembu. Vestmannaeyjar virðast ætla að sleppa ansi vel og hanga þurr. Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að ef skúrir verði á Þjóðhátíð þá muni það standa stutt yfir.

Veðrið á morgun verður norðlæg eða breytilegt átt og 3 til átta metrar á sekúndu. Vindur ætti því ekki að hafa áhrif á heimferðir fólks sem keyrir með aftanívagna líkt og segir í hugleiðingum veðurfræðings. Þá verður væta með köflum en suðvestanvert landið mun líklega hanga þurrt.

Hér að neðan má sjá spá frá Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu

Hæg breytileg átt í dag, en norðan 5-10 m/s með vesturströndinni. Skýjað að mestu og víða skúrir, sums staðar hellidembur síðdegis. Norðlæg eða breytileg átt 3-8 á morgun og væta með köflum, en þurrt um landið suðvestanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Gengur í suðaustan 8-13 með rigningu, en hægari og úrkomulítið fram eftir degi um landið austanvert. Hiti 11 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á miðvikudag: Hægviðri og rofar víða til, en fer að rigna með vaxandi austanátt sunnanlands um kvöldið. Hiti víða 10 til 15 stig.

Á fimmtudag: Allhvöss norðaustanátt með rigningu í flestum landshlutum og nokkru svalara veðri norðan- og austanlands.

Á föstudag: Líklega nokkuð hvöss norðanátt með rigningu og kólnandi veðri, en úrkomulítið suðvestantil.

Á laugardag: 
Minnkandi norðanátt og rofar til um landið sunnan- og vestanvert.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.