Enski boltinn

Skyttunum brást ekki bogalistin á vítapunktinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olivier Giroud fagnar eftir að hafa skorað úr síðustu vítaspyrnu Arsenal.
Olivier Giroud fagnar eftir að hafa skorað úr síðustu vítaspyrnu Arsenal. vísir/getty
Arsenal vann Samfélagsskjöldinn 2017 eftir sigur á Chelsea í vítaspyrnukeppni, 4-1. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1. Þetta er í fimmtánda sinn sem Arsenal vinnur Samfélagsskjöldinn.

Þessi sömu lið mættust í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í vor. Þá vann Arsenal 2-1 sigur.

Arsenal byrjaði leikinn í dag betur og Alexandre Lacazette var nálægt því að koma Skyttunum yfir þegar hann skaut í stöngina á 23. mínútu.

Chelsea komst betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn en tókst ekki að skora, ekki frekar en Arsenal.

Strax í upphafi seinni hálfleiks kom Victor Moses, sem var rekinn út af í bikarúrslitaleiknum í vor, Chelsea yfir með skoti úr teignum eftir skallasendingu frá Gary Cahill.

Á 80. mínútu rak Robert Madley Pedro af velli fyrir ljótt brot á Mohamed Elneny. Granit Xhaka tók aukaspyrnuna og sendi inn á teiginn á varamanninn Sead Kolasinac sem skallaði boltann framhjá Thibaut Courtois í marki Chelsea.

Fleiri urðu mörkin í venjulegum leiktíma ekki og því var farið í vítaspyrnukeppni sem var með svokölluðu ABBA-sniði.

Nýtt fyrirkomulag truflaði leikmenn Arsenal ekki neitt. Þeir skoruðu úr öllum sínum spyrnum en Chelsea aðeins úr einni. Courtois þrumaði yfir og Álvaro Morata skaut í stöngina.

Arsenal mætir Leicester City í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar á föstudaginn á meðan Chelsea mætir Burnley daginn eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×