Enski boltinn

Nemanja Matic síðasta púslið í meistaralið Manchester United?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Matic er strax farinn að skipa fyrir hjá United.
Nemanja Matic er strax farinn að skipa fyrir hjá United. Vísir/Getty
Manchester United keypti Nemanja Matic frá Englandsmeisturum Chelsea á dögunum og gamli markaskorinn Ian Wright er á því að þetta gætu verið sannkölluð meistarakaup.

Ian Wright telur að Chelsea hafi með þessu mögulega afhent erkifjendunum í Manchester „síðasta púsluspilið“ en hinn 28 ára gamli Serbi skilar til síns liðs mikilvægari og vanmetinni vinnu inn á miðjunni.

Chelsea vann enska titilinn á síðustu leiktíð og endaði með 24 fleiri stig en Manchester United. United hefur verið að styrkja sig í sumar en liðið komst í Meistaradeildina í gegnum Evrópudeildina.

„Eins og staðan er núna þá er Chelsea verra sett í dag en á síðasta tímabili,“ sagði Ian Wright við BBC. Hann nefnir til að félagið sé að missa svokallaða áhrifaleikmenn.

Chelsea er nefnilega búið að missa mikla reynslu úr sínu liði, seldi Matic til United, sagði að markaskorarinn Diego Costa mætti fara, bauð fyrirliðanum John Terry ekki nýjan samning og seldi síðan varamarkvörðinn Asmir Begovic til Bournemouth.

„Þeir eru að losa sig við reynda leikmenn og eru þar að missa leikmenn sem þeir vita nákvæmlega hvað þeir munu fá frá,“ sagði Wright.

„Þeir hafa fengið Bakayoko frá Mónakó til að taka við af Matic en hann þarf að koma sterkur inn frá fyrsta leik því Chelsea ætlar sér langt í Meistaradeildinni og svo að verja Englandsmeistaratitilinn,“ sagði Wright sem á sínum tíma vann titilinn með Arsenal.

Auk Tiemoue Bakayoko þá fékk Cheslea framherjann Alvaro Morata frá Real Madrid, þýska varnarmanninn  Antonio Rudiger frá Roma og Willy Caballero, fyrrum markvörð Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×