Lífið

Persónuupplýsingum um stjörnur Game of Thrones lekið á netið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Já halló, er þetta Tyrion?
Já halló, er þetta Tyrion? Vísir
Óprúttnir tölvuþrjótar sem brutust inn í tölvukerfi bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar HBO reyna nú að féfletta stöðina um margar milljónir Bandaríkjadala. Nú þegar hafa hakkararnir lekið persónulegum símanúmerum leikara úr þáttunum Game of Thrones, tölvupóstum og handritum af óbirtum þáttum. Fái þeir ekki borgað segjast þeir ætla að leka enn meira efni, þar á meðal heilu sjónvarpsþáttaröðunum og persónulegum tölvupóstsamskiptum.

Í fimm mínútna löngu myndbandi ávarpar einstaklingur sem kallar sig „Mr. Smith“ Richar Plepler, forstjóra HBO. Þar er sagt að ef upphæðin berist ekki innan þriggja daga muni þeir leka efninu sem þeir hafi undir höndum.

Samkvæmt frétt á vef breska blaðsins The Guardian segist hópurinn  hafa stolið 1,5 terabæti af gögnum. HBO hefur viðurkennt að viðkvæmum upplýsingum hafi verið stolið en þvertekur fyrir að öllu tölvukerfi stöðvarinnar hafi verið stefnt í hættu. Þá er sjónvarpsrisinn í samstarfi við bæði lögreglu og sérfræðinga um netöryggismál við rannsókn málsins.

Í myndbandsávarpinu krefjast hakkararnir sex mánaða launa í netgjaldmiðlinum Bitcoin og segjast þeir þéna 12 til 15 milljónir dollara á ári, eða sem nemur 1,2 – 1,5 milljörðum íslenskra króna, við það að kúga fé úr fyrirtækjum.

Ásamt myndbandinu lak hópurinn 3,4 gígabætum af efni. Þar á meðal voru upplýsingar um innranet HBO, lykilorð tölvustjóra og handrit að fimm Game of Thrones þáttum.

Eitt skjalið virðist innihalda lista yfir leikara í Game of Thrones, ásamt persónulegum símanúmerum þeirra og tölvupóstföngum leikaranna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×