Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: FH - Valur 2-1 | FH hélt lífi í toppbaráttunni | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH vann í kvöld afar mikilvægan sigur á toppliði Vals í stórslag 14. umferðar í Pepsi-deild karla, 2-1. Valsmenn hefðu með sigrinum getað náð ellefu stiga forystu á toppi deildarinnar og búið til tólf stiga bil á milli sín og FH-inga.

Steven Lennon og Kristján Flóki Finnbogason skoruðu mörk heimamanna í kvöld en Patrick Pedersen fyrir Valsmenn. Öll mörkin komu í síðari hálfleik en undir lokin sóttu Valsmenn jöfnunarmarkið stíft, en án árangurs.

FH-ingar voru meira með boltann í kvöld, sérstaklega framan af leik, og stýrði spili leiksins. Þeim gekk þó erfiðlega að skapa sér færi en helsta ógnun liðsins í fyrri hálfleik kom eftir langskot. Eitt slíkt strauk við slána eftir skot Robbie Crawford í lok fyrri hálfleiks.

Valsmenn beittu skyndisóknum og máttu afar litlu muna að það hefði borið árangur. Á sautjándu mínútu braut Gunnar Nielsen á Dion Acoff eftir skyndisókn en bætti upp fyrir það með því að verja spyrnu Sigurðar Egils Lárussonar.

Síðari hálfleikur var hins vegar afar fjörlegur og en öll þrjú mörk leiksins komu á fimm mínútna kafla snemma í hálfleiknum. Steven Lennon byrjaði eftir að hafa skorað eftir misheppnaða hreinsun úr vörn Vals en andartaki síðar jafnaði Pedersen eftir frábært samspil við Guðjón Pétur Lýðssson þar sem þeir félagar tættu í sig miðju og vörn FH-inga.

Kristján Flóki skoraði svo það sem reyndist sigurmark leiksins með skalla eftir hornspyrnu Lennon. Flóki hafði lítið nýst FH-ingum fram að því en þegar fyrirgjöf fann loksins Flóka við markteiginn var ekki að spyrja að niðurstöðunni.

Þrátt fyrir að Valsmenn hafi reynt hvað þeir gátu að sækja sér jöfnunarmark kom það aldrei og fögnuðu FH-ingar vel og innilega í leikslok. Það sást greinilega að það var meira undir hjá Hafnfirðingum en bara stigin þrjú.

Af hverju vann FH?

Það var mun meiri ákefð og barátta í FH-ingum í dag. Það hafði verið lítill slagkraftur í sóknarleik liðsins en stíflan brast svo í síðari hálfleik í dag, eftir að vörn Valsmanna hafði staðið vaktina vel fram að mörkunum tveimur. Í raun var lítið sem skildi á milli liðanna í dag, sérstaklega miðað við það að tapliðið klúðraði vítaspyrnu snemma leiks, en smáatriðin féllu FH-ingum í vil.

Hverjir stóðu upp úr

Steven Lennon sýndi enn og aftur hversu frábær leikmaður hann er á góðum degi. Hann skoraði bæði og lagði upp auk þess sem að hann hljóp og djöflaðist allan leikinn. Þegar hann fær að vera mikið í spilnum gerist oftast eitthvað gott í kringum hann í liði FH-inga. Margir áttu annars góðan dag í báðum liðum.

Hvað gekk illa?

Það er erfitt að lasta einhvern fyrir þennan leik. Fremstu sóknarmenn beggja liða voru ekki mikið í spilinu enda í strangri gæslu. Það segir þó sitt að báðir náðu þeir að skora í leiknum þrátt fyrir það. Leikmenn beggja liða léku vel í kvöld og leikurinn bar þess merki að þarna voru tvö af bestu liðum Pepsi-deildarinnar.

Hvað gerist næst?

FH fer nú að horfa til bikarúrslitaleiksins á laugardag en hann er gegn ÍBV. Valsmenn geta tekið sér smá frí á meðan en í næstu viku heldur slagurinn svo áfram í Pepsi-deildinni. Valsmenn eiga í næstu umferð afar erfiðan útileik gegn KR.

Maður leiksins: Steven Lennon, FH

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan

Guðjón Pétur: Ótrúlegt hvað dómarinn leyfir FH-ingum að hópast í kringum sig
Guðjón Pétur ræðir við Ívar Orra Kristjánsson, dómara leiksins. FH-ingarnir Davíð Þór Viðarsson og Kassim Doumbia hafa einnig eitthvað til málanna að leggja.vísir/andri marinó
Guðjón Pétur Lýðsson átti góðan leik fyrir Val gegn FH í kvöld en það dugði ekki til þar sem að heimamenn í Kaplakrika unnu 2-1 sigur.

„Það vantaði ákveðin gæði hjá okkur. Því miður þá fannst mér við ekki byrja að spila þennan leik almennilega fyrr en í seinni hálfleik en þá skoruðu þeir mark sem við ætluðum að koma í veg fyrir,“ sagði Guðjón Pétur eftir leikinn í kvöld.

„Eitt sem má nefna er að það er ótrúlegt hvað dómarinn leyfir FH-ingum að mikið til sín, alltaf fimm saman og reyna að hafa áhrif á hann. Hann sleppir víti sem við áttum að fá í fyrri hálfleik. Þeir fá ákveðna virðingu fyrir að vera FH og það er eitthvað sem við viljum búa okkur til líka.“

Guðjón Pétur segir fúlt að missa af þremur stigum í kvöld en það sé ekkert meira en það. Það þurfi að svara fyrir þetta í næsta leik.

„Við fengum tvö mörk á okkur í dag, eitt úr föstu leikatriði. Það var einbeitingarleysi hjá okkur á ákveðnum augnablikum í dag og það þurfum við að laga.“

Heimir: Óli Jó fann upp barnasálfræðina í íslenskri knattspyrnu
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, segir að hans menn hafi verið sterkari aðilinn gegn toppliði Vals og átt skilið að vinna 2-1 sigur. Fyrir vikið náði FH að minnka forystu Vals á toppnum í sex stig.

„Þetta var úrslitaleikur fyrir okkur og það eru bara úrslitaleikir eftir hjá okkur í öllum þeim mótum sem við erum í. Mér fannst við spila virkilega vel í þessum leik og á löngum köflum var bara eitt lið á vellinum,“ sagði Heimir.

Hann hefur áður talað um það að það hafi vantað ákveðinn kraft í lið FH en hann var til staðar í kvöld. „Við höfum ekki verið að spila eins vel og við hefðum viljað. En það var frábært hugarfar í þessum leik. Menn voru tilbúnir að hlaupa mikið og hjálpa hverjum öðrum og þá gerast yfirleitt góðir hlutir.“

Heimir segir að þrátt fyrir úrslit kvöldsins hafi Valsmenn hlutina í sínum höndum og séu líklegastir til að klára þetta. „Við vildum í kvöld sýna okkar fólki að við getum spilað vel. En þetta er nánast í húsi hjá Val.“

Heimir „kastaði inn handklæðinu“ eftir 0-0 jafntefli við KA á laugardag en fyrir leik kallaði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, það 101 sálfræði.

„Óli Jó hlýtur að vita það að hann er maðurinn sem fann upp barnasálfræðina í íslenskri knattspyrnu.“

Pétur: Aldrei uppgjöf í okkur
vísir/andri marinó
Pétur Viðarsson hefur spilað vel í vörn FH í sumar og var engin undantekning á því í kvöld, er FH vann góðan sigur á Val í mikilvægum toppslag í Pepsi-deild karla.

„Valur er á toppnum og búinn að vera sterkur í sumar. En við vorum ákveðnir í að taka þrjú stig og fannst við sterkir í dag. Mér fannst við langtum betri í 70 mínútur og þó að þeir hafi pressað á okkur undir lokin fannst mér við eiga þessi þrjú stig fyllilega skilin,“ sagði Pétur eftir leikinn.

„Við ætluðum að pressa á þá frá byrjun og spila hraðar en við höfum verið að gera. Rigningin hjálpaði okkur með það. Þeir reyndu að beita skyndisóknum og mér fannst við ekki eiga í vandræðum með það í fyrri hálfleik. Við vorum óheppnir að skora ekki 1-2 mörk þá.“

Hann segir að síðustu dagar hafi verið hefðbundnir, þrátt fyrir úrslitin gegn KA á laugardag og mikilvægi leiksins í kvöld. „Við erum að spila þétt og er engin uppgjöf í okkur. Við vorum alltaf ákveðnir í að koma til baka þrátt fyrir að hafa bara fengið jafntefli á Akureyri. Það hefur ekki verið nein fýla í mönnum og við stöndum þétt saman.“

Ólafur: Áttum að klára leikinn í fyrri hálfleik
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, harmar glötuð tækifæri hjá hans mönnum í fyrri hálfleiknum gegn FH í Kaplakrika í dag.

„Mér fannst þetta vera jafn leikur. Þó svo að þeir hefðu verið með yfirhöndina á boltanum í fyrri hálfleik fannst mér þeir ekki skapa sér nokkuð. Þessi leikur vinnst á smáatriðum - hornspyrnu.“

Hann segir að það hafi verið klaufaskapur hjá Valsmönnum að gera ekki út um leikinn í fyrri hálfleik en gestirnir fengu þá til að mynda vítaspyrnu sem fór forgörðum.

„Við vorum aular að klára þetta ekki í fyrri hálfleik. Við fengum nóg af möguleikum til þess. En við vorum fullstressaðir á boltann og fullfljótir að losa hann. Þeir voru galopnir.“

Ólafur segir ekki að mikilvægi leiksins hafi haft áhrif á hugarfar leikmanna. „Það er nóg eftir af þessu móti, þetta er bara einn leikur sem við töpum og það þýðir ekkert að dvelja við hann lengur. Nú förum við bara og gerum okkur klára í næsta leik.“

vísir/andri marinó
vísir/andri marinó

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira