Lífið

„Við ættum að skíra hann Reykjavík“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Cara De La Hoyde og Nathan Massey ætla bæði að taka virkan þátt í uppeldi barnsins þó svo að ást þeirra hafi kulnað.
Cara De La Hoyde og Nathan Massey ætla bæði að taka virkan þátt í uppeldi barnsins þó svo að ást þeirra hafi kulnað. instagram
Sigurvegarar annarrar þáttaraðar Love Island eiga von á strák - sem getinn var á Íslandi. Í nýlegu viðtali við Ok Magazine grínast þau með það hvort ekki væri rétt að skíra hann Reykjavík, eins og Beckham-hjónin gerðu í tilfelli elsta sonar síns sem getinn var í New York.

Love Island er breskur raunveruleikaþáttur sem nýtur óhemju vinsælda heimafyrir. Þátturinn er sýndur á sjónvarpsstöðinni ITV2, sex sinnum í viku og rúmlega 2 milljónir Breta horfa á hann í viku hverri.

Þátturinn lýsir sér í því að ungu fólki er komið fyrir í setri á Mallorca þar sem því er gert að næla sér í maka. Í hverri viku er fólk rekið af eyjunni sem ennþá er einhleypt og að lokum stendur eitt par uppi sem sigurvegari.

Í annarri þáttaröðinni voru það fyrrnefndu Cara De La Hoyde og Nathan Massey sem sigruðu og höfðu 50 þúsund pund, næstum 7 milljónir króna, upp úr krafsinu - sem og lítinn dreng.

Hætt saman

í samtali við Ok Magazine ræða þau Hoyde og Massey um foreldrahlutverkið og næstu skref. Þrátt fyrir að vera ekki lengur par segjast þau vera í miklum samskiptum, tali saman daglega og að þau muni bæði taka virkan þátt í uppeldinu.

Aðspurð um mögulegt nafn barnsins segjast þau vilja að það verði voldugt og segir Hoyde að hún hafi alltaf heillast af nöfnunum Archie og Alfie.

„Ég held að hann hafi verið getinn á Íslandi - við ættum að skíra hann Reykjavík!“ segir hún glettin - áður en hún bætir að það verði þó að teljast ólíklegt að þau skírið barnið eftir matvælum eða staðsetningu.

Hér að neðan má sjá þau í Bláa lóninu í mars síðastliðnum - meðan allt lék í lyndi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×