Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Fjölnir - KA 2-2 | Stigunum bróðurlega skipt í Grafarvoginum

Árni Jóhannsson skrifar
KA-menn fagna jöfnunarmarki Hrannars Björns Steingrímssonar.
KA-menn fagna jöfnunarmarki Hrannars Björns Steingrímssonar. Vísir/Andri Marinó
Fjölnir og KA skildu jöfn í Grafarvoginum 2-2 í hörkuleik fyrr í kvöld í 14. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Fjölnir er líklega svekktara liðið enda komust þeir í 2-0 eftir miðjan fyrri hálfleik en KA menn sýndu mikinn karakter í að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks. Þar skipti miklu máli fyrir þá að ná marki rétt fyrir hálfleik.

Leikurinn byrjaði mjög vel og náðu bæði lið að skapa sér sóknir en mið leikmanna var ekki alveg rétt stillt og þurftu markverðir liðanna lítið að hafa sig í frammi. Á 27. mínútu dró til tíðinda en þá rann varnarmaður KA í votu grasinu sem varð til þess að Linus Olsson náði boltanum og renndi honum á Ingimund Níels Óskarsson sem var þá kominn einn á móti markverði. Hann skrúfaði boltann í fjærhornið og kom heimamönnum í 1-0. 

11 mínútum síðar gerðu varnarmenn KA sig seka um hræðileg mistök þegar Callum Williams reyndi að vippa boltanum yfir Ægir Jarl Jónasson sem tók boltann niður og sendi gullfallega sendingu á kollinn á Þóri Guðjónss. sem stangaði knöttinn í netið. Barnalegur varnarleikur hjá KA.

Undir lok hálfleiksins fengu KA menn svo aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig sem Hallgrímur Mar Steingrímsson framkvæmdi og framkvæmdi vel en hann skrúfaði boltann með jörðinni framhjá veggnum og markverði Fjölnis og gífurlega mikilvægt mark komið hjá KA rétt fyrir hálfleik.

Hálfleikurinn var svo 10 mínútna gamall þegar Hrannar Björn Steingrímsson þrumaði knettinum í netið óverjandi fyrir Þórð Ingason marvörð Fjölnis. Eftir markið harðnaði leikurinn og dó eilítið niður. Bæði lið vildu alls ekki tapa leiknum en undir lokin litu nokkur hálffæri ljós sem hefðu getað unnið leikinn fyrir bæði lið. En jafntefli niðurstaðan og líklega sanngjörn í ljósi hvernig leikurinn þróaðist.

Afhverju endaði leikurinn með jafntefli?

Bæði lið sýndu góða takta í dag og hefðu með eilítið betri færa nýtingu hefði annaðhvort liðið getað fengið öll þrjú stigin. Einnig þá hefði betri einbeiting í vörn KA líklega skilað þeim þremur stigum en á móti kemur að karakter þeirra bjargaði þeim þegar á reyndi. 

Fjölnismenn hefðu getað haldið kraftinum sem þeir voru með í fyrri hálfleik til að ná í stigin þrjú en eftir að leikurinn harðnaði og jafnaðist út varð fátt um sóknartilburði.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá báðum liðum að halda marki sínu hreinu. Mörkin sem KA fékk á sig voru virikilega klaufaleg og auðveldlega hægt að koma í veg fyrir þau en Fjölnismenn hefðu einnig með smá einbeitingu getað komið í veg fyrir mörk KA manna.

Bestu menn vallarins?

Ægir Jarl Jónasson var bestur í liði Fjölnis hann lagði upp seinna mark liðsins og átti part í flestum sóknartilburðum þeirra ásamt því að sinna varnarvinnunni vel. Fjölnisliðið lék samt heilt yfir vel eins og KA.

Hjá KA er hægt að taka Hallgrím Mar út en ásamt því að skora eitt mark átti hann góða spretti sóknarlega.

Hvað gerist næst?

Liðin ná að ýta sér einu stigi fjær botni deildarinnar en hefðu líklega bæði fegin tekið þrjú stig. KA menn taka næst á móti Stjörnunni í erfiðum leik en þurfa að ná að halda vörn sinni góðri eins og á móti FH um daginn. Fjölnir hefði átt að mæta FH í næstu umferð en þeim leik hefur verið frestað og ekki er búið að ákveða leikdag. Þeir mæta hinsvegar í þar næstu umferð Stjörnunni á heimavelli. Bæði lið eiga því erfiða leiki fyrir höndum og þurfa að standa sig heldur betur í þeim til að sogast ekki niður í fallbaráttu.

Maður leiksins: Ægir Jarl Jónasson, sýndi góðan leik á miðjunni og lagði upp eitt mark.

Águst Þór Gylfason: Erum ekki endilega að spá í fallbaráttunni

Þjálfari Fjölnis var ekki sáttur við að fá einungis eitt stig úr leik hans mann við KA fyrr í dag. 

„Ég get ekki sætt mig við stigið, eins og leikurinn þróaðist þá hefði ég viljað klára hann. Við komumst í 2-0 og skorum frábær mörk og eigum gott upphlaup sem hefði getað klárað leikinn. Aftur á móti fáum við mark í andlitið rétt fyrir hálfleik og mjög erfitt að koma inn í seinni hálfleikinn eftir það og að sama skapi gerðu KA menn vel í að koma af krafti út í hálfleik. Við hefðum kannski átt að klára þetta í fyrri hálfleik en úr því sem komið var er eitt stig fínt í hörkuleik. Flottur leikur og mikið aksjón. KA menn spiluðu vel eins og við sem áttum góða kafla“.

Ágúst var ekki sammála því að leikurinn hafi koðnað niður og einkennst af því að hvorugt lið hafi verið að reyna að verja stigið.

„Mér fannst bæði lið hafa fengið góð færi þó það hafi aðeins dáið niður. Það var allt búið að vera á fullu í 70 mínútur. Bæði lið lögðu sig 100% fram og komu færi hérna í lokin sem hefðu getað klárað leikinn“.

Ágúst var spurður að því hvort að hans menn væru komnir með áhyggjur af því að vera að dragast niður í fallbaráttu.

„Nei við erum ekkert endilega að spá í það. Við fengum eitt stig í dag sem og liðin fyrir neðan okkur og það er stutt í KA og stutt í allt. Við verðum að halda áfram að spila eins og í dag og þá eigum við eftir að fá fullt af stigum í viðbót“.

Srdjan Tufegdzic: Stutt niður og í efri hlutann

„Ég held að við getum verið ánægðir með stigið sem við fengum í dag. Eftir að hafa lent 2-0 undir og sýnt vilja og karakter eins og við gerðum til að jafna leikinn og vera nálægt því að vinna leikinn í endann þá verðum við að vera ánægðir með eitt stig“, sagði þjálfari KA manna eftir leik liðsins við Fjölni fyrr í dag.

Hann var spurður út í mörkin sem liðið hans fékk á sig í dag en þau voru mjög klaufaleg.

„Já það er sama sagan eins og í allt sumar en við ætlum ekki að horfa á þessi mistök heldur frekar að horfa í karakterinn sem við sýndum eftir að við lentum undir á erfiðum útivelli. Við vitum að Fjölnir er að taka flest stigin sín hérna heima og að ná að jafna á endanum og reyna að sækja sigurinn þá er ég gríðarlega ánægður með mína drengi í dag. Við verðum samt að fækka mistökunum. Þetta eru barnaleg mistök sem við gerum og erum að gera nánast í hverjum leik, en ef við náum að fækka mistökunum og spila eins og í dag og á móti FH þá erum við í flottum málum“.

Það er stutt í fallbaráttuna en Tufa er ekki að hafa áhyggjur af því heldur horfir hann upp á við því það er einnig stutt í baráttuna um Evrópusætið.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það er stutt niður en það er líka stutt í efri hlutann þar sem skemmtilegra er að vera og hægt að berjast fyrir Evrópusæti. Þetta heldur bara áfram að vera stríð, það eru átta leikir eftir og helling af stigum í pottinum og við ætlum að ná í mörg stig í viðbót“.

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Extra-vellinum í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira