Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - Grindavík 2-1 | Gríðarlega mikilvægur sigur Ólsara

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Víkingar hafa unnið fimm leiki í Pepsi-deildinni í sumar.
Víkingar hafa unnið fimm leiki í Pepsi-deildinni í sumar. Vísir/Anton
Víkingur Ó. og Grindavík mættust í hörku slag í Ólafsvík í kvöld. Leikurinn var uppfullur af öllum blautu draumum fótbolta aðdáandans en mörk, vafaatriði og dass af gulum spjöldum voru í aðalhlutverki í kvöld.

Víkingur Ó. komst yfir strax á fyrstu mínútu er Eivinas Zarguskas skoraði beint úr aukaspyrnu í vítateigsboganum. Víkingur Ó. fylgdi þessu marki eftir með því að skapa sér fullt af fínum marktækifærum en náði ekki að nýta þau.

Það kom heldur betur í bakið á þeim eftir klukkutíma leik er markamaskínan, Andri Rúnar Bjarnasson skoraði eftir fína aukaspyrnu frá Rene Joensen. Grindavík hafði verið að færa sig upp á skaftið og var búið að fá mörg fín færi og því var liðið í fínni stöðu á þessum tímapunkti.

En einungis fimm mínútum síðar slapp Pape Mamadou Faye einn innfyrir og Jajalo, markvörður Grindvíkinga, braut á honum og Gunnar Jarl, dómari leiksins, flautaði vítaspyrnu. Kenan Turudija skoraði úr henni og

Víkingur Ó. aftur komið með forystu.

Grindvíkingar herjuðu af krafti á mark Ólafsvíkinga á lokamínútum leiksins en undirritaður er viss um að a.m.k. fimm færanna gátu talist í flokk dauðafæra. En ekki vildi boltinn inn þökk sé Cristian Martinez í marki

Ólsara en einnig áttu Grindvíkingar í nokkrum tilfellum að gera mun betur.

Lokatölur 2-1, Ólsurum í vil, en með sigrinum er liðið nú þremur stigum frá fallsæti. Þetta var aftur á móti fjórða tap Grindvíkinga í röð en samanlagt hafa þessir fjórir leikir endað 13-2, andstæðingi liðsins í vil.

Afhverju vann Víkingur Ó.?

Heppnin var með Ólafsvíkingum í kvöld og þá sérstaklega á lokamínútunum. Heppni og eitt stykki Cristian Martinez, markvörður, sem varði frábærlega trekk í trekk á lokasekúndum leiksins.

Þegar hann Martinez hefur gert það svo oft í sumar er kannski skrýtið að gefa einhverri heppni heiðurinn en færin voru slík að það er með hreinum ólíkindum að Grindvíkingar hafi ekki skorað.

En heilt yfir voru Ólafsvíkingar sterkari. Með réttu og kannski smá heppni hefði Ólafsvík átt að vera kominn með stigin þrjú í pokann löngu áður en Grindvíkingar gerðu sig líklega.

Grindvíkingar virka hreinlega eins og þeir séu með lítið sjálfstraust. Þeir eru lið á niðurleið á meðan mikil uppsveifla er í spilamennsku Ólafsvíkinga.

Bestu menn vallarins?

Cristian Martinez var valinn maður leiksins og þá sérstaklega eftir lokamínútur leiksins þar sem hann fór hamförum og bjargaði þremur stigum fyrir Ólafsvík.

En fram af því var hreinlega rifist um hvor Zagurskas bróðrinn átti að hreppa titilinn. Gabrielius og Eivinias Zagurskas voru báðir frábærir í leiknum og er augljóslega mikil gjöf fyrir Ólafsvíkinga.

Þessir tveir munu reynast liðinu vel á komandi vikum.

Hvað gekk illa?

Bæði lið gengu illa að nýta færin sín. Bæði lið óðu hreinlega í færum hér og þar í leiknum en illa gekk að koma boltanum inn. Andri Rúnar, maðurinn sem ekki var hægt að stöðva fyrir nokkrum vikum, virðist ekki hitta boltann jafn vel og hann gerði fyrr í sumar.

Hann skoraði reyndar mark en hann fékk nóg af færum til þess að, ekki bara jafna leikinn heldur hreinlega vinna hann.  

Aleix Egea átti fínan leik í vörn Ólafsvíkur en nefinu hans gekk þó illa. Á lokamínútum leiksins fórnaði hann sér allsvakalega í skallabolta og fékk að launum dúndur spark beint í trýnið og staðfest að hann sé nefbrotinn.

Óskum honum af sjálfsögðu skjótum bata.

Hvað gerist næst?

Víkingur Ó. mætir ÍBV í fallslag en Eyjamenn sitja í fallsæti á meðan Víkingur Ó. er einu sæti og þremur stigum ofar. Sannkallaður sex stiga fallslagur framundan.

Grindavík mætir ÍA og væri útlitið ansi svart fyrir það lið sem kemur til með að tapa þeim leik. Jafntefli væri batamerki fyrir Grindvíkinga en gæfi ÍA ekki neitt.

Maður leiksins: Cristian Martinez, Víkingur Ó.

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér að ofan

Ejub: Kominn með eitt aukahjarta

Ejub Pursevic var kátur í leikslok eftir að hans menn í Víkingi Ó. sigruðu Grindavík í hörkuleik.

„Ég er rosalega ánægður með sigurinn og þakklátur fyrir góða baráttu frá strákunum. Þeir gáfu allt, héldu haus og uppskáru þrjú stig.“

Hann segir að leikurinn hefði átt að vera mun þægilegri en rauninn var en Víkingur Ó. byrjaði leikinn mun betur en gestirnir.

„Eftir tuttugu mínútur gátum við auðveldlega verið 3-0 yfir en við nýttum ekki færin og þá byrjaði leikurinn að snúast. Í seinni hálfleik var sama sagan, við fengum nokkur góð færi til þess að klára leikinn áður en hann snýst aftur við.“

Grindavík herjaði af krafti á Ólafsvíkinga á lokamínútum leiksins og hefði liðið átt, með réttu, að jafna en inn vildi boltinn ekki. Hann segist hafa verið tiltölulega rólegur þökk sé einu aukahjarta.

„Hún var bara góð. Maður er auðvitað kominn bara með eitt aukahjarta. Við vissum að við urðum að vinna og ég er ánægður að sjá okkur halda haus.“

Víkingur Ó. er núna með þriggja stiga forskot á ÍBV sem situr í fallsæti en hann segir sína menn ekki byrjaða að anda rólega. Enda sé nóg eftir.

„Hann gefur okkur bara gott tækifæri, betri vinnufrið og skemmtilegri viku. En það er nóg eftir og ég held að lið þurfi örugglega 23-24 stig til að halda sér í deildinni,“ sagði Ejub en Víkingur Ó. er sem stendur með 16 stig í 10. sæti deildarinnar.

Óli Stefán: Skelfilegt að horfa upp á þetta

Óli Stefán, þjálfari Grindvíkinga, var ekkert að skafa af hlutunum eftir tap hans manna gegn Víkingi Ó. í kvöld. Grindvíkingar fengu á sig mark strax í upphafi leiks og hreinlega óðu í færum á lokamínútunum þegar liðið hefði átt með réttu að jafna leikinn í 2-2.

„Þetta er eins og að fá högg í magann. Við byrjuðum ekki vel, vorum værukærir og vorum að gefa frá okkur svo klaufaleg og barnaleg mörk að það var hreinlega skelfilegt að horfa upp á þetta,“ sagði Óli í viðtali við Vísi strax eftir leik en hann var ekki bara ósáttur við varnarleikinn en sóknarleikurinn fékk líka orð í eyra.

„Við sköpum okkur fullt af færum og það er líka barnalegt hvernig við vorum að klára þau. Á meðan staðan er svona á okkur þá er bara blóðug fallbarátta framundan. Við verðum að átta okkur á því.“

Grindavík byrjaði mótið frábærlega og er með 21 stig, eða átta stigum frá fallsæti, en hann segir sú byrjun ekki gefa þeim neitt öryggi og að hann hreinlega nenni ekki að tala um fortíðina.

„Mig langar ekkert að tala um fyrri umferðina. Við lifum í nútíðinni og við verðum að fara að gera okkur grein fyrir því að það bíður okkar bara barátta upp á líf og dauða.“

Hann segir eina í stöðunni fyrir liðið sé bara að halda áfram að reyna sitt besta.

„Fyrst og fremst verðum við að halda áfram að reyna. Eftir svona hrinu þá liggur greinilega á okkur smá stress og við verðum bara að komast yfir hana. Við verðum að hrinda frá okkur það sem búið er og taka stöðuna eins og hún er núna.“

Mörkin tvö sem Grindavík fékk á sig í kvöld voru úr föstum leikatriðum, aukaspyrnu og víti, en Óli var mjög ósáttur með sína menn og þá sérstaklega í fyrra markinu sem kom á upphafsmínútu leiksins.

„Ég var búinn að teikna byrjunina upp fyrir þá og það var ekkert sem kom á óvart. Við teiknuðum þetta upp í gær og þetta átti aldrei að fara svona. Menn þurfa að vera tilbúnir og einbeittir þegar það er búið að setja þetta upp í hendurnar á þeim.“

Enn mættu Grindvíkingar þá ekki einbeittir til leiks?

„Alveg klárlega ekki. Sérstaklega þegar við fáum svona mark á okkur í byrjun sem var búið að vara þá sérstaklega við. Við verðum að taka ábyrgð á þessu því þetta er ekki nógu gott.“

Andri Rúnar, framherji Grindavíkur, vildi fá vítaspyrnu á lokamínútu leiksins en Óli vildi ekki tjá sig mikið um það.

„Ég sá það ekki en það væri svo sem eftir öllu þessa daganna að það hafi farið í höndunum en ég get ekki dæmt um það.“

Hann vill þó meina að ekki vanti mikið upp á en grunnvinnuna verði að laga fyrir komandi átök.

„Við spiluðum alveg nógu vel til þess að fá eitthvað út úr þessum leik, það er alveg klárt.“

Martinez: Heppnin með okkur í dag

Cristian Martinez, markvörður Ólafsvíkinga, hefur staðið sig vel í sumar en hann átti enn einn stórleikinn í kvöld. Hann var þó hógvær í leikslok og sagði samherja sína eiga heiðurinn skilið.

„Úrslitin skrifast fyrst og fremst á liðsfélagana. Markmaður getur átt sína góðu og slæmu daga en þessi sigur skrifast fyrst og fremst bara á liðið.“

Hann tók undir með Ejub og sagði að með betri nýtingu á færum í upphafi leiks hefði Ólafsvík átt að vera búið að tryggja sér þrjú stigin mun fyrr.

„Við hefðum átt að vinna þennan leik auðveldlega því við fengum mörg góð færi. En þetta er alltaf svona á lokamínútunum. Þeir fengu fullt af færum en skoruðu ekki. Svona er fótboltinn. Stundum er heppnin með okkur og stundum ekki. Í dag var hún með okkur.“

Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður Grindvíkinga, vildi fá vítaspyrnu undir lok leiks er hann vildi meina að boltinn hafði farið í hönd Ignacio Heras í vörn Ólsara. Cristian viðurkenndi að hann sá atvikið ekki en að hann hafi spurt Ignacio út í það eftir leik en sá hefði haldið því fram að boltinn hefði farið í bringuna hans en ekki hönd.

„Ég fór út í boltann og þegar ég snéri mér við var boltinn farinn útaf. En ég spurði Ignacio eftir leikinn og hann sagði þetta ekki hafa verið hendi.“

Víkingur Ó. er með þriggja stiga forskot á ÍBV sem situr í fallsæti en næsti leikur liðsins er einmitt gegn Eyjamönnum á Hásteinsvelli.

„Þetta er mikilvægur leikur. Við áttum skelfilegan leik gegn þeim síðast en þetta eru svipuð lið sem spila svipaðan bolta. Það er alltaf erfitt að spila á Hásteinsvelli.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira