Lífið

Fær frábæra dóma fyrir uppistandið í Skotlandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Grínistinn Ari Eldjárn fær fjórar stjörnur af fimm fyrir uppistandssýningu sína Pardon My Icelandic á vef skoska blaðsins Scotsman í dag.

Gagnrýnandinn, Claire Smith, fer fögrum orðum um uppistand Ara og segir sýninguna „ástúðlega, kjánalega og bráðskemmtilega.“

Þá segir hún Ara luma á ýmsum brögðum en hann notar mikið samanburð við aðrar Norðurlandaþjóðir í uppistandssýningu sinni og segir gjarnan brandara á öðrum tungumálum en íslensku.

„Það getur ekki verið að margar uppistandssýningar á hátíðinni tefli fram bröndurum á svo mörgum tungumálum – en Eldjárn missir aldrei athygli áhorfenda sinna,“ skrifar Smith.

Ari Eldjárn er nú staddur á listahátíðinni Fringe í Edinborg í Skotlandi og býður listunnendum þar upp á uppistandssýningu sína Pardon My Icelandic.

Ari var að vonum ánægður með dóminn en hann greindi frá honum á Facebook síðu sinni í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×